Farsíma- og raftækjafyrirtækið Xiaomi er ekki gamalt en það var stofnað árið 2010. Fyrirtækið hefur vaxið gífurlega frá stofnun þess en það var yngsta fyrirtækið á Fortune 500 listanum fyrir árið 2019 þar sem það sat í 468. sæti. Árið 2015 námu tekjur fyrirtækisins um 9,5 milljörðum dollara en á síðasta ári námu þær um tæplega 25 milljörðum dollara. Árið 2014 komst fyrirtækið í fyrsta sinn inn á lista yfir stærstu farsímaframleiðendur í heimi með 56,5 milljónir seldra síma og sat þá í áttunda sæti.

Árið 2018 var Xiaomi orðinn fjórði stærsti farsímaframleiðandi í heiminum með um 122,4 milljónir seldra tækja. Árið 2014 var fyrirtækið verðmætasta óskráða tæknifyrirtæki heims eftir 1,1 milljarðs fjárfestingu sem verðmat það á 46 milljarða dollara. Fyrirtækið var skráð á markað í Hong Kong árið 2018 og nam markaðsvirði þess þá yfir 70 milljörðum dollara.

Hlutabréfaverð Xiaomi hefur hins vegar lækkað um rúmlega 55% síðan þá og stóð í byrjun desember í um 34,5 milljörðum dollara. Auk farsíma framleiðir fyrirtækið hin ýmsu raftæki undir vörumerkinu Mi. Meðal þess eru ýmis tæki sem tengjast interneti hlutanna (e. internet of things) eins og ryksugur, rakatæki, öryggismyndavélar, hreyfiskynjarar auk þess sem það framleiðir vörur á borð við rafmagnshlaupahjól, nuddtæki og hljómflutningstæki.

Fyrirtækið hefur oft verið kallað hið kínverska Apple bæði vegna líkinda við vörur þess en einnig vegna þess að markaðsstarf þess hefur verið líkt. Þá hefur verið greint frá því að eftir að hafa lesið bók um Steve Jobs í háskóla hafi Lei Jun, forstjóri Xiaomi, farið að líkja eftir Steve Jobs í einu og öllu og hafi meðal annars farið að klæðast gallabuxum og rúllukragabol.

Nánar má lesa um málið í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem er nýkomið út. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér.