Séu umsagnir dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara, til hægðarauka hér eftir kölluð nefndin, kannaðar má sjá að innbyrðis samræmi þeirra á milli gæti verið meira. Nýjasta umsögn nefndarinnar sker sig sérstaklega úr og verður ekki betur séð en að hún sé ekki í samræmi við reglur sem gilda um störf nefndarinnar.

Fyrstu starfsárs nefndarinnar var allur gangur á því hvort fjöldi hæfustu umsækjenda um stöðuna var jafn fjölda lausra embætta. Fyrsta umsögn nefndarinnar er frá 2011 en þá sóttu sex um þrjár lausar stöður í Hæstarétti. Niðurstaða nefndarinnar var að tveir umsækjendanna væru hæfastir en ekki þóttu efni til að greina á milli hæfni þeirra fjögurra sem eftir stóðu.

Síðar sama ár mat nefndin hæfni fjögurra umsækjenda vegna setningar í embætti hæstaréttardómara til rúmra þriggja ára. Einn var metinn hæfastur en í umsögn nefndarinnar kom fram að þar sem henni væri ætlað að meta hvaða umsækjandi væri hæfastur hverju sinni, þætti ekki ástæða til að gera upp á milli hæfni annarra umsækjenda.

Þeirri stefnu var þó ekki haldið undantekningalaust í þeim umsögnum sem á eftir fylgdu. Frá ársbyrjun 2012 til upphafs september 2015 veitti nefndin alls tíu umsagnir. Í þrjú skipti var það mat nefndarinnar að fleiri en einn umsækjandi teldust jafnhæfir til að hljóta skipun eða setningu og fjórum tilvikum til viðbótar tilgreindi nefndin þau sem næsthæfust töldust. Í þrígang var fjöldi hæfustu jafn fjölda lausra embætta en rétt er að taka fram að í einu af þeim skiptum var aðeins einn sem falaðist eftir stöðunni.

Enginn rökstuðningur

Víkur þá máli að umsögn sem nefndin veitti fyrir jól vegna lauss embættis við Hæstarétt en umsækjendur voru átta. Umsögnin er áhugaverð af ýmsum ástæðum. Í fyrsta lagi bættist reifun á athugasemdum umboðsmanns Alþingis, úr ársskýrslu hans frá 2016, inn í kaflann um sjónarmið sem nefndin byggir á við matið. Athugasemd umboðsmanns laut meðal annars að notkun reikniskjala við mat á hæfni umsækjenda.

„[Þ]ótt nefndin hafi við gerð fyrri umsagna stuðst við reikniskjöl við mat á umsækjendum þá hefur nefndin aldrei gert þau að hluta að áliti sínu. Þess í stað hefur nefndin ályktað um hverjir teljast hafa verið hæfastir án þess að gefa þeim innbyrðis einkunnir í niðurstöðum sínum,“ segir þar meðal annars.

Í annan stað hafnar nefndin því að staða umsækjenda í eldri reikniskjölum bindi nefndina nú. Þrír umsækjendur, allt dómarar við Landsrétt, voru metnir hæfastir af nefndinni en einn þeirra hafði skorað töluvert hærra í matinu er Landsréttur var skipaður.

Sem kunnugt er hafa fjórir dómarar við Landsrétt ekki sinnt dómstörfum við réttinn frá því að dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í svokölluðu Landsréttarmáli lá fyrir. Brugðist hefur verið við með því að setja dómara við réttinn. Kringum jól voru tvö sett í embætti dómara en tvö önnur embætti auglýst laus til setningar. Setningartíminn er til 30. júní þessa árs.

Dómnefndin lagði mat á sjö umsækjendur. Athyglisvert er að í umsögninni er ekki að finna rökstutt álit á hæfni hvers umsækjanda líkt og reglur um störf nefndarinnar kveða skýrt á um. Var það gert þar sem „nokkuð [var] liðið á setningartíma þeirra dómenda sem dómnefndin tilnefnir“. Einn umsækjandi var metinn hæfastur en að honum gengnum voru tvö metin jafnsett. Dómsmálaráðherra hefur enn ekki tekið afstöðu til hver skuli sett í stöðurnar tvær.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .