Milljarðamæringurinn Steven F. Udvar-Házy, stofnandi og eigandi flugvélaleigufélagsins Air Lease Corporation (ALC), sagði í yfirlýsingu fyrr í vikunni að allra leiða verði leitað til að fá kyrrsetningu Isavia hnekkt. Ef marka má frétt í Fréttablaðinu hefur Udvar-Házy látið kné fylgja kviði, en heimildir blaðsins herma að Udvar-Házy beiti pólitískum þrýstingi, dulbúnum hótunum og jafnvel persónulegum hótunum í deilunni.

Udvar-Házy varar við því í yfirlýsingunni að haldi Isavia málinu til streitu muni það valda íslenskum stjórnvöldum álitshnekki en hann muni leita til bandarískra stjórnvalda og stofnanna Evrópusambandsins. Pólitísk tengsl Udvar-Házy eru sögð töluverð í Bandaríkjunum og að hann eigi persónulega vini í ríkisstjórn Trump. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur sendiherra Bandaríkjanna átti fundi hér á landi vegna deilunnar.

Udvar-Házy stofnaði Air Lease Corporation árið 2010 sem í dag á og leigir út um 300 flugvélar til yfir 91 flugfélaga í 55 löndum. Hann á þó mun lengri sögu í bransanum en árið 1972 stofnaði hann ásamt öðrum International Lease Finance Corporation (ILFC) sem í dag er stærsta fyrirtæki í flugvélaleigu í heiminum. Samkvæmt tímaritinu Forbes námu eignir Udvar-Házy 3,7 milljörðum dollara árið 2014.

Kyrrsetning vélanna hefur vakið mikla athygli enda þykir mörgum skjóta skökku við að hægt sé að veðsetja leiguflugvélar í eigu annarra. Kyrrsetningin grundvallast á um 2 milljarða króna skuld Wow við Isavia. ALC hefur lagt fram aðfararbeiðni gegn Isavia og krefst þess að vélarnar verðiafhentar tafarlaust. Málið verður flutt munnlega fyrir Héraðsdómi Reykjaness í fyrramálið og er úrskurður væntalegur síðdegis sama dag.