Fyrrverandi frilla Juan Carlos, fyrrum Spánarkonungs, hefur stefnt honum fyrir rétt í Bretlandi og fer fram á nálgunarbann gagnvart honum auk bóta vegna ágangs hans. Talið er að málið eigi rætur að rekja í meint fjármálamisferli konungsins.

Corinna zu Sayn-Wittgenstein, 57 ára gömul frumkvöðull af dönskum og þýskum ættum, hóf ástarsamband með Juan Carlos, sem hefur útlagst sem Jóhann Karl á hinu ylhýra, árið 2004. Samband þeirra rataði í fréttirnar árið 2012 þegar þau voru á fílaveiðum í Botsvana og konungurinn, sem er 26 árum eldri, féll og slasaði sig. Það þótti bagalegt í ljósi þess að konungurinn hefur verið giftur Soffíu, prinsessu af Grikklandi og Danmörku, frá árinu 1962.

Undanfarið hafa fjármál konungsins fyrrverandi verið til rannsóknar en hann á meðal annars að hafa þegið háar fjárhæðir að gjöf frá ráðamönnum í Miðausturlöndum. Hluta þess, um 65 milljónir evra, millifærði hann inn á hjákonu sína árið 2012 en grunur leikur á að það hafi verið gert í von um að fela fjármuni.

Svo virðist sem ástæða þess að upp úr flosnaði hjá þeim sé að Jóhann Karl hafi óskað eftir því að Corrina skili peningunum aftur. Hún er aftur á móti ekki viljug til að gera slíkt.

Á síðasta ári flúði þjóðhöfðinginn fyrrverandi, sem afsalaði sér völdum árið 2014, til Sameinuðu arabísku furstadæmanna og hefur hafst þar við til að komast undan rannsókn á meintum spillingarbrotum í heimalandinu.