ORF Líftækni hefur ráðið Mörtu Guðrúnu Blöndal í nýtt starf yfirlögfræðings fyrirtækisins en ásamt lögfræðistörfum mun hún sinna verkefnum í viðskiptaþróun.

„Ég mun halda utan um öll lögfræðileg viðfangsefni hjá ORF, meðal annars í kringum vörumerki, einkaleyfi og alla samningagerð, en svo er ég einnig hluti af viðskiptaþróunarteymi fyrirtækisins,“ segir Marta Guðrún en hún hefur síðustu ár starfað fyrir Viðskiptaráð.

„Ég hóf störf þar árið 2014 sem lögfræðingur ráðsins en tók síðan við stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra í fyrra. Ráðið er skemmtilegur vinnustaður sem gerir manni kleift að kynnast öllum hliðum íslensks atvinnulífs. Stór hluti starfsins fólst í að tala máli viðskiptalífsins, bæði opinberlega og gagnvart Alþingi og ráðuneytum en ég hef líka haldið utan um útgáfu leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja, stýrt starfsemi Gerðardóms Viðskiptaráðs og tekið þátt í gerð leiðbeininga í samkeppnisrétti, sem gefnar verða út í næstu viku.“

Marta segir aukna meðvitund vera um gerðardómurinn. „Lengi var hann mjög lítið nýttur en nú eru nokkur mál til meðferðar hjá dómnum og áhuginn mikill,“ segir Marta og segir helstu kostina við gerðardóminn vera hraða úrlausn ágreiningsmála og algeran trúnað.

Marta er tiltölulega nýbökuð móðir og hún segir fjölskylduna vera aðaláhugamálið. „Ég er gift Steini Friðrikssyni og við eigum eina dóttur, Soffíu, sem er eins árs,“ segir Marta sem einnig hefur starfað sem fulltrúi hjá Juris lögmannsstofu og hjá endurupptökunefnd.

„Svo var ég landvörður á Þingvöllum í þrjú sumur á meðan ég var í lögfræðinni, sem hentaði mér mjög vel enda er ég mikil útivistar- og íþróttamanneskja, hef mjög gaman af hestamennsku, snjóbrettum, kajakróðri og almennt útivist og ferðalögum.“

Marta hefur alltaf verið mikil hestakona, en ólíkt mörgum þá var enginn í fjölskyldu hennar í hestum þegar hún byrjaði að stunda íþróttina.

„Það eru nokkur ár síðan ég var með hest á húsi en þegar ég var 14 ára leigði ég mér sjálf hesthúsapláss og borgaði af því með því að vinna fyrir þann sem átti hesthúsið. Ég bjó í Garðabænum og hjólaði á hverjum degi upp í Andvara og síðar Heimsenda til að fara á hestbak. Það tók sinn tíma, en var algerlega þess virði,“ segir hún.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .