„Síðasta ár var mjög skrítið. Kynslóðin á undan minni þurfti að glíma við alls kyns pestir en þetta var svona það fyrsta sem við lendum í. Hingað til hefur þetta bara verið eitt stórt partí hjá okkur,“ segir Helgi Vilhjálmsson, eigandi og framkvæmdastjóri Góu-Lindu.

Að sögn Helga var árið í fyrra nokkurn veginn á áætlun. Góa hafi tekist á við brattann á árum áður, en þegar félagið sé „komið á tindinn“ sé ekki mikið um stórar breytingar.

„Framleiðslan slapp ofboðslega vel við sóttina. Við urðum auðvitað að skipta öllu upp og misstum starfsfólk í sóttkví eins og gengur en nú erum við bólusett og með hraðpróf. Þótt einn veikist þá getur það ekki þýtt að allir aðrir þurfi að fara heim. Hjólin verða að snúast svo það komi eitthvað í baukinn hjá okkur og hinu opinbera,“ segir Helgi.

Því til viðbótar hefur Helgi nokkrar áhyggjur af því hve lítill hluti kauphækkana endar hjá launamanninum. „Það er voða lítið talað um hve mikið er hirt úr launaumslaginu, af hinu opinbera, verkalýðsfélögum og lífeyrissjóðum, áður en maður borgar þeim. Hvar endar íslenskur iðnaður ef þetta heldur áfram? Það er sjálfsagt að borga í þetta allt saman en þetta er að verða ansi mikið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .