Orkuskipti í samgöngum hafa verið nokkuð í umræðunni undanfarin ár og er rafvæðing íslenska bílaflotans nú þegar hafin. Sífellt fleiri kjósa að keyra rafbíla eða hina svokölluðu tengiltvinnbíla. Þá kom m.a. fram í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar að stefnt væri á að nýskráningar bensín- og dísilbíla yrðu bannaðar árið 2030. Það er því nokkuð ljóst að olíufélög muni þurfa að koma til með að bregðast við breyttum aðstæðum, enda fyrirséð að olíusala muni dragast smátt og smátt saman. Guðrún Ragna Garðarsdóttir, framkvæmdastjóri Atlantsolíu, segir félagið vera mjög meðvitaða um þessa þróun.

„Við erum að sjálfsögðu farin að huga að því hvernig við bregðumst við rafbílavæðingunni. Ég er þó efins um að þetta muni gerast jafn hratt og fólk heldur en við erum farin að pæla í því hvað við getum gert öðruvísi og hvað mun taka við. Það er ekkert fast í hendi hvað það varðar og línurnar munu skýrast betur í náinni framtíð. Það er viðbúið að eldsneytissala muni minnka og það verður að sjálfsögðu áskorun fyrir öll olíufélög."

Hún telur lausnina ekki felast í því að skipta út bensíndælum fyrir rafhleðslustöðvar.

„Ég tel að það verði ekki þannig að fólk muni fara inn á stöðvar til að hlaða bílana sína - það mun gera það heima hjá sér eða í vinnunni. Svo munu væntanlega verða hraðhleðslustöðvar fyrir utan helstu verslunarkjarna, þannig að fólk geti sinnt erindum á meðan bíllinn hleður sig. Fólk hefur ekki mikla þolinmæði fyrir því að bíða lengi eftir því að bíllinn fylli sig af eldsneyti og ég tel að það verði eins með rafmagnið. Ég á því erfitt með að sjá fyrir mér að fólk muni koma við á stöð og sitja úti í bíl í 20- 30 mínútur á meðan bíllinn hleður sig. Sökum þessa hef ég ekki trú á að það sé rétt lausn fyrir olíufélag eins og okkar sem byggir á sjálfsafgreiðslustöðvum að selja rafmagn í stað olíu. Það er því ljóst að heildarmyndin er að fara að gjörbreytast og hvernig við munum bregðast við því á eftir að koma betur í ljós í framtíðinni," segir Guðrún og bætir við:

„Umhverfismál koma öllum við og olíufélögin eru ekki undanskilin frá því. Umræðan hefur oft á tíðum verið svolítið einsleit og hefur einblínt á mjög afmarkaða hluta. Umræðan hefur tilhneigingu til að einblína á það sem er einfalt og stendur okkur nærri. Því liggja bílar og eldsneyti vel við höggi. Það hljómar mjög vel að orkuskipti muni breyta öllu en við vitum að það er ekki nærri því nóg - það er svo mikið af öðrum póstum sem hafa áhrif á umhverfið. Sem betur fer hefur umræðan breyst mikið á undanförnum tveimur árum og fólk er farið að horfa til þess að við þurfum öll að leggja okkar að mörkum í umhverfismálum. Fólk er t.d. sífellt betur að átta sig á áhrifum neysluhyggjunnar á umhverfið. Bíllinn er svo sannarlega partur af keðjunni, en hann er langt því frá einn ábyrgur fyrir mengunarvandamáli heimsins. Við sem olíufélag erum auðvitað að selja jarðefnaeldsneyti en í öllum okkar ferlum og öllu sem við gerum hugum við að umhverfismálum. Einn liður í því var t.d. að taka í burtu alla plasthanska á stöðvunum okkar."

Nánar er rætt við Guðrúnu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .