Um klukkan 16:00 í dag var flugstöðin á Keflavíkurflugvelli rýmd. Ástæðan er sú að flugvél frá flugvelli sem stenst ekki alþjóðlegar kröfur um öryggisleit var vísað upp að röngu hliði eftir lendingu. Þetta kemur fram í frétt Isavia.

Þegar farþegar vélarinnar gengu frá borði blönduðust þeir því við aðra farþega sem höfðu undirgengist öryggisleit. Við slíkar aðstæður segir í fréttinnu þarf að rýma flugstöðina til þess að tryggja að allir farþegar innan flugverndarsvæðis hafi undirgengist þá öryggisleit sem krafist er á flugvellinum.

Samkvæmt Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Isavia hefur nú verið gengið úr skugga um að flugstöðin sé mannlaus sem og framkvæmd hefur verið leit á svæðinu, að því er segir í frétt mbl.is .

Eru mannleg mistök sögð ástæða þess að farþegar fóru inn í flugstöðina án þess að fara í gegnum öryggisleit og því hafi þurft að rýma flugstöðina og framkvæma öryggisleit á öllum farþegum að nýju.

Hleypt var inn á flugstöðina um klukkan sex en ekki liggi fyrir nákvæm tala um fjölda farþega sem verði fyrir seinkunum af völdum rýmingarinnar, en Guðni giskar á að þeir séu um tvö til þrjú þúsund talsins.