Gengi bréfa í bandaríska tölvurisanum Apple hafa rokið upp í dag, í kjölfar uppgjörs og væntinga greiningaraðila. Félagið hefur lækkað umtalsvert frá árinu 2015 og hefur lægri afkoma og slök sala á iPhone snjallsímunum verið stór breyta í þeirri þróun.

Uppgjörið virðist þó gera snjallsímaframleiðendur bjartsýnni fyrir komandi árum. Félagið gaf nýlega út nýjan iPhone síma og gert er ráð fyrir frekari nýjungum í haust. Fyrirtækið seldi á seinasta fjórðungi allt að 40,4 milljón síma, sem er 200.000 símum meira en greiningaraðilar gerðu ráð fyrir.

Samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni, spáir Sherri Scribner frá Deutsche Bank að verð bréfanna geti farið upp í allt að 105 dali á hlut. Jum Suva hjá Citigroup spáir því að bréfin fari upp í allt að 120 dali og Simona Jankowski hjá Goldman Sachs spáir því að bréfin fari upp í allt að 124 dali á hlut.

Hvert bréf í Apple kostaði fyrir lokun markaða í gær tæpa 97 dali. Gengið er nú um 104 dalir á hlut.