Hlutabréfaverð á evrópskum mörkuðum hefur lækkað mikið í viðskiptum dagsins. Að mati The Wall Street Journal má rekja lækkanirnar að hluta til varkárs tóns í ræðu Janet Yellen, seðlabankastjóra Bandaríkjanna frá því í gær og lækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu.

Það sem af er degi hefur FTSE 100 í London fallið um 2,12%, DAX í Þýskalandi hefur lækkað um 2,31%, CAC 40 í Frakklandi heur lækkað um 3,64% og samevrópska vísitalan Stoxx 600 hefur lækkað um 3,2%.

Verðlækkanir voru einnig í Hang Seng vísitölunni í Hong Kong í morgun, en vísitalan féll um 3,9% í viðskiptum dagsins. Vísitalan hefur ekki verið lægri síðan í júní 2012. Markaðir í Kína og Japan voru lokaðir í dag vegna hátíða.

Heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað í viðskiptum dagsins. Verð á Brent hráolíu hefur lækkað um 1,5% og er nú 30,38 dalir á tunnuna.Texas hráolía hefur lækkað um 2,8% og er nú 26,69 dalir á tunnuna.