Heildarviðskipti með hlutabréf í september námu 31,5 milljörðum, sem samsvarar 1,58 milljörðum á hvern viðskiptadag. Veltan lækkaði um 5% frá ágústmánuði, og 29% milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá kauphöllinni .

5 veltumestu félögin voru Marel, Icelandair Group, N1, Hagar og Reitir í þeirri röð, með 3,5, 3,4, 3,2, 3,1 og 2,3 milljarða.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,7% milli mánaða og stendur í 1.605 stigum.

Stóru bankarnir þrír voru með mesta hlutdeild á aðalmarkaði, Landsbankinn með rúm 21%, Arion banki með tæp 21% og Íslandsbanki með um 20%. Samanlögð hlutdeild þeirra er því 62%. Heildarmarkaðsvirði skráðra félaga var 1.002 milljarðar króna í lok september og var nánast óbreytt frá ágústmánuði.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 89,4 milljörðum sem samsvarar 4,5 milljarða króna veltu á hvern viðskiptadag, og er 25% hækkun milli mánuða, en 13% lækkun milli ára.

Viðskipti með ríkisbréf námu 73% allrar veltu, eða 65 milljörðum, viðskipti með bankabréf námu 15% eða 13,3 milljörðum, og viðskipti með íbúðabréf tæpum 7%, eða 6,1 milljarði.

Mesta hlutdeild á skuldabréfamarkaði höfðu Fossar markaðir, með 19,6%, en þar á eftir kom Kvika með 18,6%, og Landsbankinn með 18%.

Aðalvísitala skuldabréfa hækkaði um 0,4% í september og stendur í 1.403 stigum. Óverðtryggð skuldabréfavísitala lækkaði um 0,3%, en sú verðtryggða hækkaði um 0,8%.