Verðmæti félaga í Kauphöllinni sem hlutfall af hagnaði eru lægri að meðaltali en í nokkrum af stærstu hlutabréfavísitölum Bandaríkjanna. H eiðar Guðjónsson, fjárfestir og stjórnarformaður Sýnar, og Agnar Tómas Mölller, framkvæmdastjóri sjóða hjá Gamma, sögðu í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að verðlagning í Kauphöllinni væri lág sem skýrðist af áhyggjum af yfirstandandi kjaraviðræðum og skorti á fjármagni, m.a. vegna aukinna fjárfestinga lífeyrissjóða erlendis á kostnað innlendra fjárfestinga. Markaðsvirði félaganna í Kauphöllinni sem hlutfall af hagnaði (V/H hlutfall) er að meðaltali 17,3 og miðgildið er 15,9. Icelandair Group er eina félagið sem rekið var með tapi á tólf mánaða tímabili sem lauk á þriðja ársfjórðungi 2018.

Til samanburðar eru V/H hlutföll S&P 500 og Nasdaq 100 vísitalnanna 20,5 og Dow Industrial vísitölunnar 20,1 samkvæmt greiningu Wall Street Journal. Allar hlutabréfavísitölurnar lækkuðu á síðari hluta ársins. V/H hlutfall S&P var 22,4 fyrir ári, 27,8 fyrir Nasdaq 100 og 23,4 fyrir Dow Jones Industrial. Þá þarf einnig að hafa í huga að samsetning atvinnugreina vísitalnanna er ólík en nokkur munur getur verið á V/H hlutföllum eftir atvinnugreinum. Hátt V/H hlutfall getur verið til marks um að félög á markaði séu ofmetin eða að hagnaður síðasta árs hafi verið óvenjulágur og þar með lægri en væntingar um framtíðarhagnað gefa til kynna.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .