Íslandspóstur ohf. (ÍSP) fékk í júní 500 milljónir króna í aukið hlutafé frá ríkinu. Þetta staðfestir fjármála- og efnahagsráðuneytið (FJR) við Viðskiptablaðið. Beiðni um aukið hlutafé kom frá stjórn félagsins en heimildir blaðsins herma að ella hefði það ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Hlutafjáraukningin hefur ekki verið tilkynnt til fyrirtækjaskrár.

Fyrir ári síðan fékk ÍSP 500 milljónir í lán frá eiganda sínum og fyrir jól. Gjalddagi var á því láni síðastliðinn mánudag 16. september. Fyrir jól samþykkti Alþingi að samþykkti Alþingi heimild til að endurlána félaginu allt að milljarð til viðbótar eða að auka hlutafé um sömu upphæð.

Sjá einnig: Eftirlitsnefnd með sátt nær óstarfhæf í rúmt ár

„Ráðherrum ber að upplýsa bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi áður en nýttar eru þær lána- og framlagsheimildir sem hér er gerð tillaga um,“ segir í nefndaráliti meirihlutans við fjárlög síðasta árs þar sem lánsheimildinni var bætt við frumvarpið.

„Hins vegar finnst mér líka mikilvægt að segja hér að það kemur fram í nefndarálitinu að gera þarf bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd grein fyrir þeirri fjárhagslegu endurskipulagningu sem fram þarf að fara og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi áður en þær heimildir sem hér er verið að fjalla um verða nýttar,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, fulltrúi Vinstri grænna í fjárlaganefnd, meðal annars í umræðum um fjárlagafrumvarpið .

Samkvæmt upplýsingum frá FJR er kynning á endurskipulagningu fyrirtækisins og útfærslu á framtíðarrekstrarfyrirkomulagi fyrir fjárlaganefnd á döfinni síðar í þessum mánuði.

Nefndarmenn í fyrrgreindum fastanefndum, sem Viðskiptablaðið ræddi við, könnuðust ekki við að þeim hefði verið gert sérstaklega viðvart um hlutafjáraukninguna þegar hún átti sér stað í júní. FJR sendi fjárlaganefnd hins vegar minnisblað í mars þar sem fram kom að fjármálaráðherra hygðist breyta fyrrgreindu láni frá síðasta hausti í hlutafé. Þá yrði hlutafé aukið eftir þörfum á árinu um allt að einn milljarð króna til viðbótar. Líkleg fjárþörf á vormánuðum væri 500 milljónir króna.

Eitt land, eitt verð

Sagt var frá því í Viðskiptablaðinu í júní að gjaldfelling á fyrrgreindu láni hafi komið til álita í tvígang. Afráðið var að gera það ekki þar sem ríkið óttaðist víxlverkandi áhrif sem hefðu riðið fyrirtækinu að fullu. Allar helstu fasteignir félagsins eru veðsettar í botn. Fasteignamat þeirra er um 2 milljarðar króna en veðsetningin tekur til 2,9 milljarða. Í raun hefur veðrými félagsins verið uppurið síðan árið 2015.

„Að mati Endurlána ríkissjóðs er rekstrar- og lausafjárvandi Íslandspósts það alvarlegur að frekari lánveitingar til félagsins þjóni litlum tilgangi. Staða félagsins hefur versnað hratt undanfarið ár, hraðar en áætlanir félagsins gerðu ráð fyrir og hún heldur áfram að versna. Félagið er ekki rekstrarhæft eins og staða þess er um þessar mundir og hefur reyndar ekki verið um nokkurn tíma,“ segir í umsögn Endurlána ríkissjóðs sem dagsett er í mars.

Sjá einnig: Órekstrarhæft um nokkurt skeið

Í fyrrgreindu minnisblaði FJR er fullyrt að ekki sé um ólögmæta ríkisaðstoð að ræða. Í skýrslu ríkisendurskoðanda um ÍSP, sem kom út í sumar, var sett út á það að ráðuneytið hefði ekki rætt við Eftirlitsstofnun EFTA og Samkeppniseftirlitið um það hvort fyrirhugaðar fjárveitingar stæðust EES-samninginn.

Ný lög um póstþjónustu taka gildi um næstu áramót. Þau fela meðal annars í sér afnám einkaréttar á bréfum og verður Pósturinn því í hreinni samkeppni á markaði. Nokkuð ljóst er þó að á strjálbýlustu svæðum landsins munu ekki verða forsendur fyrir samkeppni enda afar ósennilegt að þau geti skilað hagnaði. Lögin fela einnig í sér að alþjónustuveitanda, sem verður án vafa ÍSP, verður skylt að bjóða upp á sama verð á alþjónustu um land allt. Nú standa því yfir samningaviðræður milli ÍSP og eiganda um það hve mikið ríkið þarf að greiða Póstinum fyrir að sinna téðri þjónustu.