Hlutafé í Kviku banka var aukið um 450 milljónir króna 27. desember síðastliðinn. Eigendur áskriftarréttinda að hlutabréfum í Kviku nýttu þá sér heimild til að kaupa hlutafé í bankanum fyrir um 111,4 milljónir króna að nafnvirði á genginu 4,06 krónur á hlut. Hlutafé Kviku var aukið um 6,5% við hlutafjáraukninguna og þynnist eignarhlutur annarra hluthafa sem því nemur. Samkomulag um áskriftarréttindin var gert í byrjun október 2016 fyrir 130 milljónir króna að nafnvirði í svokölluðum A-flokki hlutabréfa Kviku.

Samkvæmt áskriftarsamkomulaginu var gengi nýrra hluta samkvæmt áskriftarréttindunum 3,84 krónur á hlut að viðbættum 5% ávöxtun á ársgrunni fyrir hvern mánuð frá október 2016. Gildistími réttindanna var 36 mánuðir.

Hlutabréf í Kviku hækkað talsvert

Markaðsvirði hluta í Kviku hefur hækkað nokkuð síðan gengið var frá samkomulaginu. 300 milljóna hlutafjáraukning Kviku til að fjármagna kaup félagsins á verðbréfafyrirtækinu Virðingu var gerð á um 5,5 krónur á hlut í haust. Heimildir Fréttablaðsins herma að viðskipti með Kviku hafi að undanförnu farið fram á genginu 6,3 til 6,6 krónur á hlut. Miðað við það er hlutafé í Kviku ríflega helmingi verðmætari en það verð sem greitt var við hlutafjáraukninguna. Segja má að það endurspegli væntingar fjárfesta um að Kvika sé töluvert verðmætara félag en þegar samkomulagið um áskriftarréttindin var gert fyrir 15 mánuðum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .