„Ég óttast að lögin um hlutdeildarlánin verði til þess að launafólk, sem leggur hart að sér til að eignast eigin húsnæði og hefur takmarkaða eða enga möguleika til að mæta sveiflum í greiðslubyrði, festist í neti fjárhagslegra erfiðleika sem hægt væri að komast hjá með skynsamlegri lagasetningu. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér en líkurnar eru meiri en minni á að ótti minn raungerist,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður efnahags- og viðskiptanefndar, í nýjasta þætti hlaðvarps síns, Alltaf til hægri.

Sem kunnugt er samþykkti Alþingi lög um hlutdeildarlán fyrir sléttri viku. Allir viðstaddir þingmenn, fyrir utan einn, studdu að frumvarpið yrði að lögum. Eini sem greiddi því ekki atkvæði var téður Óli Björn.

Sjá einnig: Einn studdi ekki hlutdeildarlán

„Það er ekki einfalt eða léttvægt fyrir stjórnarþingmann að sitja hjá þegar frumvarp ríkisstjórnar kemur til atkvæða. Með rökum má halda því fram að hjásetja sé í raun ekki annað en yfirlýsing um að styðja ekki málið og jafngildi því að greiða atkvæði á móti stjórnarfrumvarpi,“ segir Óli. Í hlaðvarpinu útlistar hann ástæðurnar að baki því að hann studdi ekki lagasetninguna.

Markmið hlutdeildarlánanna er að veita fólki, sem er að kaupa sína fyrstu eign eða hefur ekki átt fasteign í fimm ár, aðstoð við að eignast fasteign. Þurfa þeir að leggja út minnst 5% eigið fé á móti 75% fasteignaláni frá fjármálastofnun. Það lán raðast á fyrstu veðrétti íbúðarinnar. Ríkið lánar síðan það sem upp á vantar. Téðir kaupendur verða að vera undir ákveðnum tekjumörkum til að geta nýtt sér úrræðið.

„Við fyrstu umræðu fór ég yfir nokkur helstu atriði í frumvarpi félagsmálaráðherra sem ég taldi gagnrýniverð og vegna þeirra gæti ég ekki stutt málið. Sum þeirra voru svo alvarleg að ekki var hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að málið væri allt illa undirbúið, vanhugsað, þar sem hvað annað rækist á hvert horn. Ákvæði og skilyrði ynnu gegn yfirlýstu markmiði um að auðvelda fólki að eignast sína fyrstu íbúð,“ segir Óli Björn.

Skánaði milli umræðna

Milli fyrstu og annarar umræðu lagði velferðarnefnd þingsins til fjölmargar breytingar á frumvarpinu til að reyna að sníða af því helstu vankanta. Óli Björn segir að það hafi verið ágætt, svo langt sem það náði, en því fari hins vegar fjarri að það hafi dugað til. Benti hann á að fyrirmyndin hafi verið sótt til Bretlands, þá einkum til Skotlands, en að reynsla þeirra hafi ekki verið ýkja góð. Úrræðið hafi vissulega rétt fólki hjálparhönd en stórt hlutfall þess hafi ekki haft þörf fyrir það.

„Opinber skýrsla, sem gefin var út í Bretlandi í júní síðastliðnum, benti á alvarlega galla. Hún virðist ekki hafa hreyft við neinum hér á landi. Með réttu hefði hún átt að gefa stjórnvöldum tilefni til að fara betur yfir málið og forðast svipuð mistök og gerð hafa verið í öðrum löndum,“ segir Óli Björn en fyrr hafði hann sagt að „stundum [lægi] meira á að setja lög en vanda til verka“.

Útfærsla laganna hér heima felur í sér að lán frá fjármálastofnun má að meginstefnu ekki vera til lengri tíma en 25 ára. Í upphaflegri útgáfu frumvarpsins var það skilyrði án undantekninga. Breytingar nefndarinnar fólu í sér að unnt er að sækja um undanþágu og lengja lánstímann en þá má lánið ekki vera verðtryggt.

„Það er sérstaklega ámælisvert að lögin, sem nú hafa verið samþykkt, skuli taka vopn úr höndum launafólks sem er í viðkvæmri stöðu og ræður illa við miklar sveiflur í greiðslubyrði lána. Með því að meina þeim sem taka hlutdeildarlán möguleikanum á að vera með hefðbundið, verðtryggt íbúðalán, er dregið úr vörnum launafólks,“ segir Óli Björn.

Vextir hér á landi eru sem stendur í sögulegu lágmarki en viðbúið er að þeir muni fara hækkandi á ný þegar efnahagskerfið réttir úr kútnum. Það mun hafa áhrif á greiðslubyrði lána. Að mati Óla Björns munu lagaákvæðin auka áhættu einstaklinga við lántöku og vinna gegn yfirlýstu markmiði frumvarpsins um að aðstoða fólk við að eignast eigið húsnæði.

Jafn fráleitt og að úthluta barnabótum með lotteríi

Að mati þingmannsins eru þetta ekki einu brotalamirnar í lögunum. Aðeins er stefnt að því að veita hlutdeildarlán til um 400 umsækjenda á ári og að umfangið verði um 4 milljarðar króna árlega í tíu ár. Verði ásóknin í lánin meiri en fjárlög gera ráð fyrir verður haldið húsnæðislotterí úr gildum umsóknum.

„Engin trygging er fyrir því að jafnræðisreglan nái fram að ganga, þvert á móti er verið að búa til einskonar ríkisrekið happdrætti ef ásókn er meiri en fjárlagaheimild er fyrir. Það er eins víst að þeir sem mest þurfa á þessum lánum að halda dragi jókerinn, sitji eftir með sárt enni. Sem sagt, einstaklingur eða sambúðarfólk, sem uppfyllir öll skilyrði fyrir því að fá hlutdeildarlán, hafa enga tryggingu fyrir því að fá lánið. Verði eftirspurn of mikil verður það hrein tilviljun eða heppni hver fær í ríkisrekna happdrættinu,“ segir Óli Björn.

„Þetta er galin aðferðafræði og engin trygging fyrir því að takmarkaðir fjármunir renni til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda. Þetta er jafn fráleitt og að úthluta barnabótum með happdrætti, þar sem í hattinum eru allir þeir sem eiga rétt á barnabótum en aðeins hluti verður svo heppinn að fá eitthvað í sinn hlut,“ segir Óli Björn.

Í hlaðvarpinu kemur þingmaðurinn inn á fleiri hluti sem hann telur varhugaverða. Meðal annars hvernig Húsnæðis- og mannvirkjastofnun mun standa að gerð samninga við byggingaverktaka um hvað teljist hagkvæmar íbúðir fyrir lánin. Einnig hvernig þeir verktakar verða valdir og hvaða kröfur þeir þurfa að uppfylla. Þá fela lögin í sér ofboðslega víðtæka reglugerðarheimild handa ráðherra til að ákveða hvaða leikreglur eiga að gilda hverju sinni.

„Hér feta menn inn á nýjar brautir í húsnæðismálum og því mikilvægt að menn viti hvað sé verið að gera, séu klárir á því hvaða áhrif opinber stuðningur hefur á íbúðamarkað til að yfirlýstum markmiðum sé náð. Því miður skortir þetta allt í nýrri lagasetningu og er það meginástæða þess að ég taldi mér ekki kleift að styðja málið á þingi,“ segir Óli Björn að lokum.

Hægt er að hlusta á hlaðvarpið í heild sinni hér .