Frá því að fyrst var byrjað að veita hlutdeildarlán í nóvember á síðasta ári til 1. maí á þessu ári hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) samþykkt 263 umsóknir um hlutdeildarlán þar sem umsækjandi var með kaupsamning. Þetta kemur fram í svari félagsmálaráðherra við fyrirspurn um lánin.

Hlutdeildarlán hafa hingað til verið mest nýtt við kaup á íbúðum á Kraganum og Suðurnesjum, eða í 102 skipti. Þar af voru 50 kaupsamningar í póstnúmerum Reykjanesbæjar, um 19% allra samþykktra kaupsamninga. Um 5% þjóðarinnar búa á svæðinu.

Sjá einnig: Klóra sér í hausnum yfir ásókninni

Úrræðið hefur næstoftast verið notað við kaup á íbúðum í Reykjavík, eða í 83 skipti. Þar af er úrræðið oftast notað við kaup á íbúðum í Grafarvogi, eða í 36 skipti og næstoftast í Háaleitis- og Bústaðahverfi, eða í 29 skipti.

Úrræðinu er ætlað að hjálpa fólki við kaup á fyrstu íbúð. Eigið fé þarf aðeins að nema um 5% af verðmæti íbúðar en ríkið brúar mismuninn á móti lánastofnunum.

Fyrstu drög reglugerðar um úthlutun lánanna þóttu afar þröng og voru afar fáar íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem uppfylltu skilyrðin um hlutdeildarlán . Eftir að slakað var aðeins á skilyrðum um hlutdeildarlán færðist aðeins meira líf í nýtingu úrræðisins á höfuðborgarsvæðinu.

Hlutdeildarlán verða veitt til að hámarki um 400 umsækjenda á ári og að umfang þeirra verði um fjórir milljarðar árlega, en HMS hefur nú greitt út 129 hlutdeildarlán fyrir um 1,1 milljarð króna. Verði eftirspurn eftir lánunum meiri en fjárlög gera ráð fyrir verður haldið happdrætti úr gildum umsóknum.