Hlutfall nemenda sem útskrifast úr framhaldsskólum hefur aukist hægt frá árinu 2002, en fjórum árum seinna útskrifuðust 45% nýnema ársins 2002 úr skólum, en hlutfallið fór upp í 54% fyrir nýnema ársins 2013.

Það haust hófu 4.510 nemar nám í dagsskóla á framhaldsskólastigi hérlendis að því er Hagstofan greinir frá , en fjórum árum síðar höfðu 25,3% þeirra hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé, en 20,5% voru þá enn í námi án þess að hafa brautskráðst.

Fleiri klára í borginni en úti á landi

Fleiri ljúka námi í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Þannig höfðu 57,5% þeirra nýnema, sem hófu nám í skólum á höfuðborgarsvæðinu haustið 2013 lokið námi árið 2017 en 48,6% þeirra sem hófu nám í skólum utan höfuðborgarsvæðisins. Tæp 22% nýnema á höfuðborgarsvæðinu höfðu hætt námi án þess að útskrifast en 31% nýnema í skólum utan höfuðborgarsvæðisins.

Brautskráningarhlutfall nýnema áranna 2002 og 2003 var hærra eftir 4 ár meðal nýnema í starfsnámi en í bóknámi. Síðan þá hefur brautskráningarhlutfall þeirra sem innritast í starfsnám, og hafa brautskráðst eftir 4 ár, lækkað á meðan hlutfall þeirra sem innritast í bóknám og ljúka eftir 4 ár hefur hækkað.

Meðal nýnema haustsins 2013 munaði 20 prósentustigum á brautskráningarhlutfallinu, þar sem rúm 58% þeirra sem innrituðust í bóknám höfðu útskrifast en rúm 38% þeirra sem innrituðust í starfsnám.

Innflytjendur útskrifast síður en Íslendingar fæddir erlendis standa sig best

Færri innflytjendur útskrifast úr framhaldsskóla en nemendur af íslenskum uppruna, en haustið 2013 hófu 284 innflytjendur nám í dagskóla á framhaldsskólastigi og fjórum árum síðar höfðu 28,2% þeirra útskrifast.

Brautskráningarhlutfall var hins vegar hæst meðal nemenda fæddra erlendis með íslenskan bakgrunn, en 66,5% þeirra sem hófu nám haustið 2013 höfðu útskrifast árið 2017, og rúm 56% þeirra sem hafa engan erlendan bakgrunn. Annarrar kynslóðar innflytjendur eru fáir meðal nýnema 2013 en þeir eru líkari nemendum án erlends bakgrunns en innflytjendum miðað við gögn Hagstofunnar.