Hluthafar Icelandair samþykktu samhljóða báðar tillögur stjórnar félagsins sem lagðar voru fyrir fundinn á hluthafafundi sem fór fram á Hilton Reykjavík Nordica og er nýlokið. Mun hlutafjárútboðið fara fram í næstu viku og reiknað með að niðurstöður þess verði tilkynntar 18. september nk.

Í vor samþykkti hluthafafundur Icelandair heimild fyrir félagið til að hækka hlutafé um allt að 23 milljarða króna. Hækkunin þurfti að eiga sér stað fyrir ágústlok. Áður en unnt var að hefja útboðið þurfti félagið að semja við lykilstéttir, lánadrottna og Boeing um framhaldið. Þær samningaviðræður drógust á langinn, en tókust þó að lokum, og þurfti því að boða á ný til hluthafafundar.

Líkt og fyrr segir voru tvær tillögur lagðar fyrir hluthafafundinn. Sú fyrri snerist um að veita stjórn heimild til að að ráðast í hlutafjáraukningu. Seinni tillagan sneri svo að því að stjórn félagsins verði heimilt að ákveða að hinum nýju hlutum í félaginu fylgi áskriftarréttindi sem samsvara allt að 25% af skráningu nýrra hluta í fyrirhuguðu útboði. Heimilt verði að nýta þau í einu lagi eða í skrefum á allt að tveggja ára tímabili frá útgáfu, samkvæmt nánari skilmálum sem stjórn ákveður.

Líkt og fyrr segir samþykktu hluthafar báðar tillögur stjórnar samhljóða.