Viðbúið er að langan tíma muni taka að fá botn í mál útgerða landsins gegn ríkinu vegna úthlutunar á aflaheimildum í makríl árin 2011-18. Fjórum málum er lokið að hluta en minnst sex mál til viðbótar hafa verið höfðuð. Verði niðurstaðan á versta veg fyrir ríkið er viðbúið að það muni þurfa að greiða útgerðunum tugmilljarða króna.

Fleiri mál sem gætu reynst ríkinu kostnaðarsöm hafa verið í deiglunni undanfarið. Ber þar fyrst að nefna mál Sigríðar Sælands Jónsdóttur gegn ríkinu vegna ólögmætrar skerðingar á ellilífeyri vegna lífeyristekna. Niðurstaða Landsréttar var að sú skerðing hefði ekki haft lagastoð og að afturvirk lög þess efnis væru að vettugi virðandi. Dómurinn kemur til með að kosta ríkið fimm milljarða verði honum ekki hnekkt í Hæstarétti.

Kröfur dómþola og erfingja í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum gætu að auki orðið svimandi háar. Samanlagt gæti kostnaður vegna alls þessa, verði niðurstaðan á versta veg fyrir ríkið, verið nálægt 33 milljarða afgangi síðustu fjárlaga.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .