Eignarhlutur Bjarna Ármannssonar og Jakobs Valgeirs Flosasonar í Iceland Seafood er sá sami nú og áður. Þetta er árréttað í tilkynningu frá Iceland Seafood.

Í morgun birtust frumherjatilkynningar frá Iceland Seafood í Kauphöllinni vegna tvímenninganna. Ástæðan fyrir þeim eru slitin á Solo Holding ehf. Það félag var stofnað fyrir um ári síðan til að greiða fyrir eigendabreytingum á Iceland Seafood og hlutverki félagsins nú lokið í kjölfarið á hlutabréfaútboði félagsins.

Í gær var sagt frá því að tilboðum fyrir 2,1 milljarða króna hefði verið tekið í hlutafjárútboðinu en alls bárust tilboð fyrir tæpa 3 milljarða króna. 9,6% í félaginu voru boðin út í útboðinu og þynnist eignarhlutur þeirra sem fyrir voru í samræmi við það.

Meðal þeirra sem keyptu í útboðinu má nefna stjórnarmeðlimina Liv Bergþórsdóttur og Magnús Bjarnason. Bæði keyptu þau hluti fyrir tvær milljónir króna.

Tilkynnt var í dag um að félagið yrði tekið á Aðalmarkað Kauphallarinnar en viðskipti með bréf félagsins, sem verður það tuttugasta á markaðnum, munu hefjast 29. október næstkomandi.

„Eigendur [Solo Holding] hafa ákveðið að leysa upp sameiginlegt eignarhald þeirra á hlutum í Iceland Seafood þannig að eignarhlutir í Iceland Seafood fari til hvers eiganda í sömu hlutföllum og eignarhlutur hvers og eins í félaginu. Hlutabréfin eru síðan til frjálsrar ráðstöfunar eigenda sinna. Ástæða aðgerða þessa er til að auka gegnsæi í hluthafahópi Iceland Seafood og að hluthafar í Solo Holding, sem allir eru hluthafar í Iceland Seafood komi fram sem beinir eigendur í félaginu,“ segir í tilkynningu frá Iceland Seafood.

Við þetta eykst eignarhlutur eigenda Solo Holding í Iceland Seafood beint í Iceland Seafood. Jakob Valgeir ehf., FISK-seafood ehf., Nesfiskur ehf. og Sjávarsýn ehf. um tæplega 1,5 prósentustig. Eignarhlutur Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. eykst um 1,7 prósentustig. Að sama skapi hverfur Solo Holding af hluthafalista Iceland Seafood með tæplega 9% eignarhlut (8,9%).