Í september nam heildarvelta á millibankamarkaði með gjaldeyri 313 milljónum evra, andvirði 51 milljarði króna. Það er ríflega helmingshækkun frá fyrri mánuði þegar veltan nam alls 32,6 milljörðum króna og meira en tvöföld velta samanborið við júlí 2020. Frá þessu er greint á heimasíðu Seðlabankans.

Sjá einnig: SÍ innleiðir nýtt millibankakerfi

Hlutur Seðlabankans af veltu í september var 24,8 milljarðar króna eða tæplega helmingur af heildarveltu. Hlutur bankans var 15,6 milljarðar í mánuðinum þar á undan. Aukin velta Seðlabankans má skýra vegna ákvörðun bankans um reglubundna gjaldeyrissölu frá 9. september síðastliðnum. Meðalgengi evru gagnvart krónu hækkaði um 0,6% milli ágúst og september.

Eignir Seðlabankans að mestu erlendar

Enn fremur greinir Seðlabankinn frá því að heildareignir bankans voru 964 milljarðar króna í lok september sem höfðu þá lækkað um 29 milljarða milli mánaða. Til samanburðar voru heildareignir Íslandsbanka 1.303 milljarðar í lok annars ársfjórðungs 2020 og heildareignir Arion Banka 1.182 milljarðar króna á sama tíma.

Af heildareignum Seðlabankans námu erlendar eignir 944 milljörðum króna og innlendar eignir um 20 milljörðum. Skuldir Seðlabanka Íslands námu 771 milljarði króna þar sem innlendar skuldir voru 730 milljarðar.