Hlutabréf í fataverslunarkeðjunni H&M hækkuðu um yfir 10% í dag eftir að forsvarsmenn fyrirtækisins fullvissuðu fjárfesta um að ekki þyrfti að koma til frekari niðurskurðar til að koma birgðum fyrirtækisins í verð. Reuters segir frá .

Erfiðleikar við innleiðingu nýs vörustjórnunarkerfis fyrirtækisins hafa kostað það 400 milljón sænskar krónur, um 5 milljarða íslenskra króna.

H&M sagðist hinsvegar ekki búast við að þurfa að selja fleiri föt á útsölu á yfirstandandi ársfjórðungi til að losa um vörubirgðir, þökk sé „gæðum og jafnvægi“ þeirra.

Hlutabréf félagsins hækkuðu um rúm 10% við þessa yfirlýsingu, en fyrir hækkunina var verð þeirra aðeins um þriðjungur þess sem það hafði verið árið 2015.