Lífeyrissjóðir atvinnubílstjóra, kennara og starfsmanna í neðanjarðarlestum í Bandaríkjunum hafa höfðað mál á hendur þýska fjármálarisans Allianz þar í landi. Lífeyrissjóðirnir, sem allir nýta sér þjónustu Allianz, vilja meina að Allianz hafi mistekist að vernda fjárfestingar sjóðanna eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á, að því er kemur fram í frétt Reuters um málið.

Veirufaraldurinn varð þess valdandi að markaðir léku á reiðiskjálfi sem hafði milljarða tap í för með sér. Það er þó ekkert annað stórfyrirtæki í eignarstýringarbransanum sem á yfir höfði sér jafn margar lögsóknir og Allianz vegna aðgerða í faraldrinum.

Samanlagt tap þeirra fjárfesta sem hafa höfðað mál gegn Allianz nemur um 4 milljörðum dala. Haft er eftir talsmanni Allianz að þó að þetta mikla tap séu vonbrigði, séu kröfur fjárfesta gegn fyrirtækinu gallaðar, lagalega og staðreyndarlega séð, og því muni fyrirtækið verjast þeim með kjafti og klóm.