Nokkuð bjart var um að litast í Kauphöllinni í dag. Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,76% og heildarviðskipti með hlutabréf á aðalmarkaði námu 2,3 milljörðum króna.

Flest félög hækkuðu í viðskiptum dagsins, mörg hver nokkuð duglega. TM leiddi daginn með 8,94% hækkun í 103 milljóna króna viðskiptum, en fast á hæla tryggingafélagsins komu Sýn með 8,74% hækkun í 198 milljóna viðskiptum, og Icelandair með 8,22% í 68 milljónum. Bréf Origo hækkuðu auk þess um 7,18% í 366 milljóna viðskiptum, en önnur félög náðu ekki 4% hækkun.

Sex félög lækkuðu í dag, mest af öllum Brim með 3,54% lækkun í 86 milljóna króna viðskiptum, en þar næst komu Hagar með 2,11% lækkun í 127 milljónum og Iceland Seafood með 2,04% lækkun í 10 milljónum.

Marel leiddi sem svo oft áður veltutölur dagsins með 610 milljóna króna viðskipti sem skiluðu bréfum félagsins 3,55% hækkun. Origo kom næst með áðurgreinda 366 milljóna veltu, og loks var 355 milljóna króna velta með bréf Sjóvár, sem hækkuðu um 2,80%.