Haraldur Þórðarson, framkvæmdastjóri Fossa markaða gagnrýndi innflæðishöft Seðlabanka Íslands á hádegisverðafundi Amerísk-íslenska viðskiptafélagsins á mánudaginn.

Höftin væru svo víðtæk að þau gætu haft þveröfug áhrif við það sem til var ætlast. Erlendir fjárfestar sem hyggjast flytja fé til landsins til fjárfestinga í skuldabréfum eru að leggja 40% af nýfjárfestingum inn á vaxtalausan reikning í Seðlabankanum í 12 mánuði.„Þau voru upprunalega sett fram til að letja vaxtamunaviðskipti,“ sagði Haraldur.

Þau hefðu hins vegar mun víðtækari áhrif en einungis að útiloka hrein vaxtamunaviðskipti. „Innstreymishöft eru svo útilokandi að sjóðir sem þurfa að sýna verð daglega geta það ekki,“ sagði Haraldur.

Dæmi væri um að sjóðir sem einungis mættu fjárfesta í ríkisskuldabréfum gætu það ekki hér á landi því þeim væri óheimilt að geyma fé í banka. „Það kaldhæðnislegasta í þessu er að þeir sem geta fjárfest þrátt fyrir höftin eru þeir sem eru með sveigjanlegustu fjárfestingarstefnuna, það eru vogunarsjóðir,“ sagði Haraldur. Það séu þeir sjóðir sem Seðlabankinn vilji síst allra að fjárfesti hér á landi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .