Hörður Gunnarsson, framkvæmdastjóri Iceland Travel, segir að í ár muni fyrirtækið þjóna um 90 þúsund farþegum sem koma með flugi og 70 þúsund farþegum sem koma með skemmtiferðaskipum.

„Áherslurnar eru sem fyrr að halda áfram markvissu markaðsstarfi. Iceland Travel eyðir á þessu ári í sölu og markaðsherferðir á erlendum mörkuðum yfir 700 milljónum. Ég held að það séu ekki mörg íslensk fyrirtæki sem eyða jafn miklu í kynningu. Fyrirtækið er sérhæft sem dreifiaðili. Þetta er markaðsfyrirtæki, þannig að kjarnastarfsemin er óbreytt.

Við erum ekki að tala um að fara út í aðra hliðarstarfsemi eins og staðan er núna, heldur að einbeita okkur að dreifileiðunum, nýta okkur ný tækifæri í þessari stafrænu byltingu. Þar erum við að reyna að stefna markvisst áfram. Við erum að eyða umtalsverðum fjárhæðum og mannskap í að þróa það frekar. Við sjáum þar tækifæri.“

Hann telur að bjart sé yfir íslenskri ferðaþjónustu. „Ég held að við höfum fengið þarna nýja auðlind, sem við eigum eftir að vinna miklu meira úr. Við getum skapað mikið meiri verðmæti úr henni heldur en við höfum gert, og það komum við til með að gera.

Það er bara með þessa auðlind eins og aðrar, að þú mátt ekki ganga of mikið á hana. Ef við ofveiðum fiskinn þá hverfur hann. Við þurfum að umgangast íslenska náttúru af mikilli nærgætni og virðingu, og hiklaust vera mjög harðir þar og ákveðnir. Þá tel ég að við eigum bara mjög bjarta framtíð. Það eru mjög spennandi tímar fram undan.“

Ítarlegt viðtal við Hörð er í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .