Ósamið er við alla opinbera starfsmenn og vill BSRB hækkun lægstu launa líkt og í lífskjarasamningunum en BHM leggur hins vegar áfram áherslu á að hærri laun fylgi hærra menntunarstigi. Formaður BHM sagði í viðtali við Viðskiptalbaðið að krónutöluhækkanir þýði kjararýrnun miðað við þær verðbólguspár sem unnið er eftir

Formaður BSRB varar einnig við kjararýrnun og vilja sum aðildarfélög þess krónutöluhækkanir upp að ákveðnu marki og síðan taki prósentuhækkanir við. Bandalagið vísað sínum kjaraviðræðum til Ríkissáttasemjara því það hafi fremur gengið aftur á bak en áfram í þeim. Formaður BHM sagði svipað hafa gerst í þeirra viðræðum.

Sonja Ýr Þorbergsdóttir formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja segir einungis þrjú af aðildarfélögum BSRB hafa komist áleiðis með að ræða launaliðinn við sína viðsemjendur. „Einungis Sameyki, stærsta aðildarfélagið innan BSRB, sem varð til við sameiningu starfsmannafélaga ríkis og Reykjavíkurborgar, Landssamband lögreglumanna og Sjúkraliðafélag Íslands eru farin að ræða launaliðinn eitthvað. Nú þegar viðræðurnar eru komnar undir verkstjórn Ríkissáttasemjara vonumst við eftir auknum hraða.

Ég held þó að allir séu sammála um það, bæði við hjá BSRB og okkar viðsemjendur að sá hnútur sem þurfi að höggva á fyrst sé stytting vinnuvikunnar, sem verið hefur áherslumál okkar til margra ára. Þar hljóma kröfur okkar um 35 stunda vinnuviku og 80% af því fyrir vaktavinnufólk. Núna er verið að samræma skipulag viðræðnanna en styttingin verður meginverkefnið á næstu dögum og hún tekin í fyrstu atrennu,“ segir Sonja Ýr.

„Þess utan eru fleiri mál sem eftir er að ræða, eins og til dæmis jöfnun launa milli almenna og opinbera markaðarins og launaþróunartryggingin svo og ýmis sérmál félaganna, starfsumhverfið og loks auðvitað launaliðurinn sjálfur. Öll félögin hafa verið að horfa til þess sem kemur út úr styttingunni og þess vegna leggjum við áherslu á að klára hana fyrst. Að því gefnu að það fáist jákvæð niðurstaða þar, þá taka kröfurnar í launaliðnum mið af almenna markaðnum. Þó hefur Sameyki viljað tryggja að ekki verði kaupmáttarrýrnun hjá sínum félagsmönnum og sjáum við þá fyrir okkur krónutöluhækkun upp að einhverju bili og síðan taki prósentuhækkun við eftir það.“

Löggur og sjúkraliðar vilja meira

Einnig nefnir Sonja Ýr að bæði lögreglumenn og sjúkraliðar vilji það sem kalla mætti leiðréttingar á sínum launum. „Sjúkraliðar vilja fá sambærileg laun og samanburðarstéttir á almenna vinnumarkaðnum. Lögreglumenn hafa svo verið í vegferð frá árinu 2015 til að leiðrétta launatöfluna sína, því hún er búin að vera úr sér gengin frá árinu 2008 og eru allir sammála um að halda þeirri vinnu áfram.

Hjá sjúkraliðum hefur verið skakkt verðmætamat, þar sem kvennastörf í umönnunargeiranum, eru verr launuð en samanburðarstörf á almenna vinnumarkaðnum. Sjúkraliðar hafa verið að bera sig til dæmis við iðnaðarmenn, því bæði störfin eru á þriðja hæfnisþrepi, það er með sambærilegar kröfur um menntun. Jafnframt er skortur á sjúkraliðum og væri hækkun leið til að gera stórátak í að laða fólk í þessi störf,“ segir Sonja Ýr sem segir þá vinnu sem nú sé í gangi um jöfnun launa milli vinnumarkaða mikilvæga í þessu samhengi.

„Aðildarfélögin sjálf fara með umboðið í samningunum um launaliðinn sjálfan og svona ýmis sérmál eins og fræðslumál sem hafa verið mismunandi milli félaga, en BSRB er með umboð félaganna í sameiginlegu málunum eins og styttingu vinnuvikunnar, jöfnun launa milli opinbera og almenna markaðarins og hvað má bæta í starfsumhverfinu. Opinberir starfsmenn fengu það loforð að farið yrði í vinnu við að jafna laun milli markaða og munurinn yrði skoðaður eftir að lífeyrisréttindin voru samræmd, enda hafði skilningurinn verið lengi sá að opinberir starfsmenn væru með lægri laun en betri lífeyrisréttindi.

Því er núna starfshópur að störfum þar sem í eru fulltrúar allra aðila á opinbera vinnumarkaðnum ásamt fulltrúum stjórnvalda, en hann er ekki búinn að birta skýrslu sína. Þessi jöfnun kæmi alveg fyrir utan launaliðinn, en reynt verður að skoða þetta niður á starfsheiti því það er ljóst að launamunurinn er misjafnlega mikill. Skýrslur segja okkur að að meðaltali séu laun um 17% hærri á almenna markaðnum. Síðan hangir auðvitað þetta saman við launaþróunartrygginguna sem við vorum með í síðustu samningum og við viljum ræða áfram svo við sitjum ekki eftir ef launaskrið verður á almenna markaðnum eftir undirritun samninganna.“

Opinberir starfsmenn taki ekki veikindadaga að óþörfu

Spurð hvort meira starfsöryggi hjá opinbera markaðnum vegi ekki upp lægri laun segir Sonja Ýr að á móti hafi verið bent á íþyngjandi atriði í starfsskyldum opinberra starfsmanna. „Þeim ber meðal annars skylda til að vinna yfirvinnu, það eru þyngri refsingar fyrir brot í starfi og svo eru ekki allir sammála um hvort áminning sé íþyngjandi eða hvort það séu réttindi, svo það var ákveðið að fara ekki í þennan samanburð í þessari vinnu að svo stöddu,“ segir Sonja Ýr.

„Loks er mjög langur aðdragandi að umræðum um starfsumhverfið en Cranet rannsóknir HR hafa verið að meta mannauðsstjórnun til einkunna þar sem hið opinbera er að koma mun lakara út en einkamarkaðurinn sem segir okkur að þar sé svigrúm til úrbóta. Frá grasrótinni koma skýr skilaboð um að álagið sé allt of mikið, enda vitum við að veikindafjarvera er mun meiri á opinbera markaðnum en þeim almenna.

Rannsóknir sýna að það eru helst konur sem eru að veikjast, og það vegna starfsumhverfis til dæmis í skólum og heilbrigðisþjónustu. Enda veldur það meira álagi að vera í þjónustustörfum með miklum nánum persónulegum samskiptum við einstaklinga, sem og í kennslu.

Við viljum ráðast að rót vandans, því þetta snýst ekki um þessi auknu veikindaréttindi sem opinberir starfsmenn eru með, ég hef aldrei heyrt um neinn sem tekur sér veikindadaga að óþörfu. Í staðinn fyrir að ráðast að afkomumöguleikum fólks með því að draga úr réttindum ætti að ráðast í breytingar á stjórnuninni til að fyrirbyggja þessi miklu veikindi. Ef það tekst þyrfti enginn á þessum veikindadögum að halda.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .