Höldur á Akureyri voru valin menntafyrirtæki ársins  á menntadegi atvinnulífsins í Hörpu. Þá voru Friðheimar í Bláskógabyggð valdir menntasproti ársins.

Höldur rekur Bílaleigu Akureyrar sem er stærsta bílaleiga landsins með tuttugu og þrjú útibú. Flotinn telur um 4.500 bíla og er fyrirtækið með um 240 starfsmenn allt árið og á fjórða hundrað þegar mest er að gera yfir sumartímann.

„Við hjá Höldi lítum á að það sé fjárfesting til framtíðar að mennta og styðja starfsfólk okkar til náms og gera það þannig hæfara til að sinna sínu, bæði í leik og starfi. Það styrkir viðkomandi einstaklinga og eykur almenna ánægju sem skilar sér í betri þjónustu til viðskiptavina okkar,“ sagði Steingrímur og bætti við.

„Án virks mannauðs eru fyrirtækin lítið annað en innantóm orð, í raun bara umbúðir og það er okkar, stjórnendanna að búa svo um hnútana að innihaldið geti vaxið og dafnað, öllum til hagsbóta, er haft eftir Steingrími Birgissyni, forstjóri Hölds á vef SA.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Knútur Ármann tók við verðlaununum fyrir hönd Friðheima. „Að flétta saman landbúnað og ferðaþjónustu sem margir hafa áhuga á en það er hægt að gera það á svo margvíslega vegu. Það eru ótrúlega spennandi tímar framundan. Það er að hægja á fjölgun ferðamanna og þá gefst tími til að anda. Byggja innviði enn frekar upp, bæta þekkingu, kennslu og fræðslu í ferðaþjónustu. Eftir fáein ár höfum við aukið gæði innan greinarinnar enn frekar og verðum með áhugaverðari stað til að heimsækja, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn,“ sagði Knútur.

Árið 1995 keyptu Knútur og eiginkona hans Helena Hermundardóttir Friðheima, sem þá var yfirgefin gróðrarstöð. Fyrir 10 árum opnuðu þau Friðheima fyrir ferðamönnum og á síðasta ári heimsóttu þau um 180 þúsund gestir. Ferðaþjónusta er veigamesti þátturinn í rekstri Friðheima í dag ásamt framleiðslu tómata, hrossarækt og fræðslu um íslenska hestinn og ylrækt á Íslandi. Friðheimar eru opnir allt árið. Heilsársstörf eru um 50 og 10 starfsmenn bætast við yfir sumarið.