Hopp Reykjavík ehf., sem áður hét Hopp Mobility ehf., hagnaðist um rúmlega 31 milljón króna á síðasta ári en árið á undan, sem jafnframt var hið fyrsta í rekstri félagsins, tapaði það tæplega 17 milljónum. Þetta má lesa úr ársreikningi félagsins.

Rekstrartekjur síðasta árs námu 170,6 milljónum og ríflega ellefufölduðust frá fyrra ári. Rekstrargjöld jukust að sama skapi, námu 115 milljónum en það er hundrað milljónum meira en árið á undan. EBITDA var jákvæð um 55 milljónir samanborið við neikvæðar 100 þúsund krónur á fyrsta starfsári félagsins.

Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnskostnaðar var afkoman jákvæð um 34,6 milljónir króna en hafði verið neikvæð árið á undan. Ársreikningi félagsins hafði verið skilað í gegnum hnappinn og er hann því skýringalaus.

Fastafjármunir félagsins voru færðir til bókar á 24,5 milljónir í árslok, viðskiptakröfur voru rúmlega sex milljónir og aðrar skammtímakröfur og fyrirframgreiddur kostnaður nam 69,7 milljónum. Alls voru eignir 106 milljónir rúmar. Engar langtímaskuldir eru í félaginu en skammtímaskuldir námu alls 91 milljón í ársbyrjun. Stærstur hluti þess er rúmlega 76 milljóna skuld við tengdan aðila.

Hagnaður ársins endaði á óráðstöfuðu eigin fé og er eigið fé nú jákvætt um 14,7 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins er tæp 14% og veltufjárhlutfallið 0,89.

Á þessu ári færði fyrirtækið út kvíarnar og stækkaði mögulegt ferðasvæði í höfuðborginni auk þess að hefja starfsemi á landsbyggðinni. Stofnuð hafa verið félög utan um reksturinn í Vestmannaeyjum, Reykjanesbæ, Akureyri og Akranesi en starfsemi hófst þar af fullum krafti á þessu ári. Ársreikningar þeirra fyrir síðasta ár gefa því litla vísbendingu um gengið þar.

Stærstu eigendur Hopp eru þeir Eiríkur Heiðar Nilsson og Ægir Giraldo Þorsteinsson en þeir eiga hvor um sig 47,5% hlut í félaginu.