43 starfsmönnum Íslandspósts var sagt upp störfum í dag. Vinnumálastofnun og hlutaðeigandi stéttarfélögum hefur verið gert viðvart. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Reglulega hefur verið fjallað um fjárhagsvanda Íslandspósts á liðnum mánuðum. Fyrr á þessu ári steig Ingimundur Sigurpálsson úr stóli forstjóra og Birgir Jónsson tók við stjórnartaumunum. Síðan þá hefur framkvæmdastjórn fyrirtækisins verið skorin niður og nú er ráðist í frekari niðurskurðaraðgerðir.

„Uppsagnirnar eru liður í nauðsynlegum hagræðingar aðgerðum sem miða að því að tryggja sjálfbæran rekstur fyrirtækisins og nútímavæðingu starfseminnar. Uppsagnirnar eru fyrst og fremst meðal millistjórnenda, á skrifstofu og í póstmiðstöð,“ segir í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir enn fremur að þeim sem missa vinnuna verði boðið upp á ráðgjöf frá sérfræðingum við atvinnuleit og sálfræðiaðstoð kjósi þeir slíkt. Starfsfólk nálægt starfslokaaldri fær einnig sérstaka ráðgjöf. Hugað verður sérstaklega að starfsfólki sem áfram starfar hjá félaginu með það að marki að byggja upp starfsanda.

„Uppsagnirnar í dag eru sársaukafullar og taka á alla, en eru því miður óumflýjanlegar til að hægt sé að ná settum markmiðum í rekstri fyrirtækisins. Við þökkum starfsfólkinu fyrir þeirra störf og munum leggja okkur fram við að aðstoða það við næstu skref,“ segir Birgir Jónsson forstjóri Íslandspósts.

Samhliða uppsögnum verður ráðist í skipulagsbreytingar til að tryggja að þjónusta fyrirtækisins skerðist ekki. Deildir verða sameinaðar eða lagðar niður og skipurit einfaldað. Stöðugildi hjá fyrirtækinu, fyrir uppsagnir, voru 666 talsins en þeim verður fækkað um alls 80. Gert er ráð fyrir því að 500 milljónir sparist á ársgrundvelli. Uppsagnarfrestur starfsfólks er á bilinu þrír til sex mánuðir og því ráð gert fyrir að hagræðingin komi fram í byrjun næsta árs.