Skattyfirvöld í Bretlandi, sem á ensku bera heitið HMRC, sem stendur fyrir tekju- og tollainnheimta hennar hátignar, hefur hótað bresku verslunarkeðjunni Iceland sektargreiðslum vegna jólasparnaðarkerfis starfsmanna.

Nemur sektin um 21 milljóna punda, eða sem samsvarar 3,1 milljarði íslenskra króna, en stofnunin segir kerfið, sem heimilar starfsmönnum að leggja hluta af launum sínum til hliðar til að taka út fyrir jólin, tæknilega séð lækka laun þeirra undir mörk lágmarkslauna.

Jólasparnaðarkerfið sem starfsmenn Iceland hafa haft aðgang að áratugum saman, hefur að sögn skattyfirvalda landsins leitt til undirgreiðslu til starfsmanna að fjárhæð 3,5 milljóna sterlingspunda á sex ára tímabili. Það þýðir að starfsmenn hafa heimilað fyrirtækinu að spara og væntanlega ávaxta sem nemur 5,2 milljörðum íslenskra króna á þessu tímabili.

„Við vonum að HMRC muni sjá að sér,“ segir Keith Hann, framkvæmdastjóri hjá Iceland, en Independent hefur eftir honum að fyrirtækið sé í viðræðum við skattyfirvöldin vegna ásakananna, sem hann segir ekki hafa orðið vandamál fyrr en nú því „mismunurinn á milli okkar launa og lágmarkslaunanna hafi nú dregist saman“.

Lágmarkslaun í Bretlandi nema 8,21 pundi á tímann fyrir starfsmenn 25 ára og eldri, en það nemur um 1.200 íslenskum krónum. Þeir sem eru á aldursbilinu 21 til 24 eiga heimtingu á að fá 7,70 pund, eða 1.141 krónu, starfsmenn á milli 18 og 20 geta vænst 6,15 punda, eða 911 kóna og loks þeir sem eru yngri en 18 ára hafa lágmarkslaun sem nema 4,35 pundum eða 645 krónur á tímann.