Agnes Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Kalda, segir að Kaldi sé hvorki í útrás né stefni á útrás, meðal annars vegna þess að þeir 700.000 lítrar af bjór sem bruggaðir eru á Árskógssandi anna ekki innlendri eftirspurn. Verksmiðjan gengur allan sólarhringinn til að ná hámarksnýtingu út úr bruggtækjunum. En það er ekki nóg. Af þeim sökum er útlit fyrir að Bruggsmiðjan bæti við sig nýjum tækjum á næstu misserum svo hægt verði að framleiða milljón lítra á ári.

„En eins og staðan er núna ætlum við ekki í útrás. Okkur hefur ekki hugnast það en sú hugmynd hefur alveg komið upp. Við erum lítið brugghús og viljum frekar gera vel við Íslendinga. Ég hef alltaf reynt að reka þetta með það fyrir augunum að flækja hlutina ekki of mikið. Með flókna framleiðslu og allt þetta fólk í vinnu væri það bara óþarfa flækja. Ég vil ekki flækja hluti,“ segir Agnes. Þrátt fyrir það hefur fyrirtækið fengið úthlutað lóð í nágrenni við bjórböðin, þar sem til stendur að hefja uppbyggingu hótels á næstu misserum og standa vonir til að það opni árið 2020. „Mig langar svolítið í lítið hótel,“ segir Agnes.

Metsala á bóndadaginn

Auk hefðbundins Kalda framleiðir Bruggsmiðjan fjölda árstíðartengdra bjóra. „Stærsta salan okkar á einum degi er yfirleitt bóndadagurinn. Þá kemur þorrabjórinn í sölu í ÁTVR. Þorrabjórinn okkar er líka eini íslenski bjórinn þar sem er kvenmaður, valkyrja, utan á flöskunni,“ segir Agnes, en auk þorrabjórs selur Kaldi páska- og jólabjór. Sumarbjór hefur hins vegar enn ekki verið í boði. „Það á eftir að taka ákvörðun um hvort við gerum sumarlínu. Við höfum aðeins rætt hvort það eigi að vera sumarléttöl. Við höfum framleitt mjög vinsælt léttöl því ólíkt sumum brugghúsum, sem mér skilst að þynni bjórinn sinn þangað til hann verður léttöl, þá bruggum við okkar léttöl frá grunni með alvöru bjórbragði,“ segir Agnes.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .