Samkvæmt úttekt greiningardeildar Arion banka virðist framboð hótelherbergja vera að nálgast jafnvægi miðað við Norðurlöndin, en síðastliðinn áratug hefur fjölgun hótelherbergja ekki fylgt fjölgun ferðamanna.

Ferðamenn á hvert hótelherbergi hafa farið úr um það bil 200 árið 2011 í tæpa 500 í ár, en hafa nokkurn veginn staðið í stað síðustu misseri. Í dag eru rúm 5.000 hótelherbergi á höfuðborgarsvæðinu, en samkvæmt greiningardeildinni er útlit fyrir að að minnsta kosti 1.200 herbergi bætist við næstu fjögur árin, og auk þess eru um 1.600 til viðbótar komin mislangt á teikniborðinu.

Nýtingarhlutfall á höfuðborgarsvæðinu var nokkuð stöðugt í kringum 60% á fyrsta áratug aldarinnar, en tók kipp 2011 og fór hæst í um 85% 2016. Það lækkaði lítillega í fyrra og greiningardeildin gerir ráð fyrir að sú lækkun muni halda áfram næstu ár og ná jafnvægi í um 70% árið 2020.

Nýting á landsbyggðinni var svipuð yfir sumarið í fyrra, en dalaði öllu meira yfir veturinn og fór lægst niður í um 40%. Nýting hótelherbergja á landsvísu er þó mjög góð í evrópskum samanburði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .