Greiningardeild Arion banka spáir því að hótelherbergjum fjölgi um 43% á höfuðborgarsvæðinu frá árslokum 2017 til ársloka 2022 eða um ríflega 2.000 herbergi. Tæplega 200 hótelherbergi bætast við framboðið á þessu ári, en framkvæmdir standa yfir á um 1.200 hundruð hótelherbergjum en um 1.600 hótelherbergi eru á þróunarstigi. Á landsbyggðinni eru í dag ríflega 4.000 hótelherbergi og býst Arion banki við að á næstu árum gæti þeim fjölgað um tæplega 40%. Ríflega 1.500 hótelherbergi eru ýmist á teikniborðinu eða í byggingu.

Greiningardeildin býst við að herbergjanýting á höfuðborgarsvæðinu lækki næstu árin en verði engu síður ríflega 70%, sem er vel yfir meðalnýtingu í höfuðborgum Norðurlandanna þar sem hún er um 60%. Þó sé verð á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu orðið mjög hátt og hærra en í höfuðborgum hinna Norðurlandanna. Meðalhótelnóttin í Reykjavík kostaði 27.000 krónur í sumar. Þá hafi rekstur hótela þyngst ef marka megi afkomu þriggja stærstu hótelkeðja landsins, Icelandair hótela, Íslandshótela og Keahótela, en samanlögð afkoma þeirra versnaði nokkuð milli áranna 2016 og 2017.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .