Fjórar stærstu hótelkeðjur landsins, Flugleiðahótel, Íslandshótel, Keahótel og Centerhotels, högnuðust um samtals tæplega 2,5 milljarða á síðasta ári og jókst hagnaður þeirra um tæplega milljarð króna milli ára. Þá var samanlögð afkoma síðasta árs tæplega hálfum milljarði hærri en árið 2016 og tæplega 1,5 milljörðum hærri en árið 2015 en þess ber þó að geta að samanlagðar tekjur félaganna hafa aukist um 66% á síðustu fjórum árum.

Þrátt fyrir að samanlagður hagnaður hafi aukist um 985 milljónir milli ára stendur bætt afkoma Íslandshótela undir nær allri hækkuninni. Afkoma tveggja félaga batnaði á milli ára á meðan afkoma tveggja þeirra dróst lítillega saman. Flugleiðahótel skiluðu 240 milljóna hagnaði á síðasta ári en afkoma félagsins dróst saman um 7 milljónir milli ára. Hagnaður Íslandshótela nam 1.431 milljón króna og jókst um ríflega milljarð. Hagnaður Keahótela nam 484 milljónum króna og dróst saman um 55 milljónir milli ára á meðan hagnaður Centerhotels jókst um 17 milljónir og nam 314 milljónum.

Þegar litið er á veltu félaganna standa Flugleiðahótel og Íslandshótel sannarlega upp úr sem langstærstu hótelkeðjur landsins. Tekjur Flugleiðahótela námu 12.130 milljónum króna og jukust um 12% á milli ára. Tekur félagið naumlega fram úr Íslandshótelum sem stærsta hótelkeðja landsins. Félagið rekur átta hótel undir vörumerkinu Icelandair Hotels, Nordica hótelin Reykjavík Nordica, Canopy Reykjavík og Reykjavík Konsulat auk þess að reka Alda Hotel Reykjavík. Þá rak félagið átta sumar hótel undir merkjum Hótel Eddu en næsta sumar verður hótelunum hins vegar fækkað niður í fjögur.

Tekjur Íslandshótela námu um 12,1 milljarði á síðasta ári og jukust um 6% milli ára. Íslandshótel rekur stærstan hluta starfsemi sinnar undir vörumerkinu Fosshótel en þau eru 15 talsins auk þess sem félagið rekur einnig Grand Hótel Reykjavík og Hótel Reykjavík Centrum. Tekjur Keahótela námu 4.157 milljónum í fyrra og jukust um 29% milli ára en félagið rekur alls 11 hótel, 7  í Reykjavík og 4 á landsbyggðinni. Þá námu tekjur Centerhotels 4.774 milljónum á síðasta ári og jukust þær um 25% milli ára en eins og nafn félagsins gefur til kynna rekur félagið sjö hótel í miðbæ Reykjavíkur.

Alls námu tekjur hótelkeðjanna fjögurra rúmlega 33,1 milljarði króna á síðasta ári og jókst veltan um tæplega 4 milljarða milli ára. Eins og áður segir hefur samanlögð velta fyrirtækjanna aukist um 13,1 milljarð frá árinu 2015 eða um 66%. Þannig hefur velta Flugleiðahótela aukist um 50%, velta Íslandshótela um 75%, Keahótela um 57% auk þess sem velta Centerhotels hefur tæplega tvöfaldast frá árinu 2015.

Tæplega 40 milljarða eignir

Þegar efnahagsreikningar hótelkeðjanna eru skoðaðir er mikilvægt að hafa í huga að töluverður munur er á því hvernig félögin eru upp sett. Sum þeirra eru nær eingöngu rekstrarfélög sem leigja eignir af fasteignafélögum á meðan önnur eiga nær allar fasteignir sínar og eru þar af leiðandi með mun stærri efnahagsreikning auk þess sem meira eigið fé er bundið í rekstrinum. Þessi munur kemur bersýnilega í ljóst þegar eignir Íslandshótela eru bornar saman við hin félögin. Eignir félagsins námu 39,5 milljörðum króna í lok síðasta árs og jukust um 1,8 milljarða á milli ára.

Eignir Flugleiða hótela námu 5,7 milljörðum og jukust um 670 milljónir á meðan eignir Keahótela voru 1,8 milljarðar en jukust þó um 831 milljón á síðasta ári. Þá námu eignir Centerhotels rúmlega 4,1 milljarði í lok ársins og jukust um 265 milljónir milli ára. Samtals námu eignir félaganna 51,2 milljörðum í lok árs 2018 og jukust um 7% milli ára en eignir Íslandshótela standa undir um 77% af heildareignum félaganna þrátt fyrir að félagið sé einungis með ríflega þriðjung af heildartekjunum.

Eiginfjárhlutfall var nokkuð ólíkt milli félaga en að meðaltali var það 37,5% og hækkaði um 2,3 prósentustig milli ára. Eiginfjárhlutfall Íslandshótela var 42,2% í lok síðasta árs og hækkaði um 2 prósentustig milli ára en eigið fé félagsins nam 16,7 milljörðum í lok ársins og er um 82% af samanlögðu eigin fé hótelkeðjanna fjögurra. Þá nam arðsemi eiginfjár 9% hjá Íslandshótelum á síðasta ári. Íslandshótel eru að stærstum hluta í eigu Ólafs D. Torfasonar, stofnanda og stjórnarformanns Íslandshótela, auk þess sem eignarhaldsfélagið S38 slhf. fer með 24,2% hlut en það félag er að stærstum hluta í eigu framtakssjóðanna Kjölfestu og Eddu en sjóðirnir eru að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóðanna. Íslandshótel greiddu 117 milljónir í arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2017 auk þess sem félagið mun greiða 300 milljónir í arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2018.

Eiginfjárhlutfall Flugleiðahótela var 33,1% í lok ársins og lækkaði um 0,3 prósentustig milli ára auk þess sem arðsemi eiginfjár var 13,6% á síðasta ári. Flugleiðahótel hafa verið að fullu í eigu Icelandair Group en eins og greint var frá í júlí hefur malasíska fyrirtækið Berjaya fest kaup á 75% hlut í félaginu en eins og fram hefur komið er stjórnarformaður Berjaya malasíski kaupsýslumaðurinn Vincent Tan sem er líklega þekkastur sem eigandi velska knattspyrnuliðsins Cardiff City.

Eiginfjárhlutfall Keahótela var 57,3% í lok síðasta árs og hækkaði um 0,8 prósentustig milli ára en arðsemi eigin fjár var 61,3% hjá félaginu á síðasta ári. Stærstu eigendur Keahótela eru bandaríska fasteignafélagið JL Properties með 25% hlut, bandaríska eignastýringarfyrirtækið Pt Capital Advisors með 50% hlut, en það félag er einnig stærsti eigandi fjarskiptafyrirtækisins Nova, auk þess sem Erkihvönn ehf. fer með 25% hlut. Félagið greiddi engan arð vegna rekstrarársins 2017 en hins vegar er lagt til í skýrslu stjórnar að greiddur verði arður upp á 1.031 milljón á þessu ári en sú upphæð stendur undir nær öllu eigin fé fyrirtækisins.

Þá var eiginfjárhlutfall Centerhotels 17,6% í lok ársins og hækkaði um 6,1 prósentustig milli ára en arðsemi eiginfjár nam 53,4% á síðasta ári. Centerhotels eru í eigu S&K eignarhaldsfélags en það félag er í eigu hjónanna Kristófers Oliverssonar og Svanfríðar Jónsdóttur en Kristófer er jafnframt framkvæmdastjóri hótelkeðjunnar. Félagið greiddi 28 milljónir í arðgreiðslur vegna rekstrarársins 2017 en ákvörðun um arðgreiðslu vegna 2018 kemur ekki fram í ársreikningi félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .