Helgi Vigfússon hefur verið ráðinn hótelstjóri Hilton Reykjavík Nordica. Hann tekur við starfinu af Ingólfi Haraldssyni sem var á dögunum ráðinn framkvæmdastjóri Icelandair Hotels , hótelkeðjunnar sem Nordica tilheyrir. Greint er frá ráðningunni á starfsmannavef fyrirtækisins.

Helgi hefur síðastliðin fimm ár starfað sem hótelstjóri fimm stjörnu hótelsins The Retreat í Bláa lóninu þar sem hann bar ábyrgð á rekstri Retreat Hotel, Silica Hotel, Moss Restaurant, Lava Restaurant, Spa og kaffistöðum hótelsins.

Þá starfaði hann um tíma sem veitingastjóri Grillmarkaðarins og þar áður starfaði hann við framreiðslu á ýmsum hótelum og veitingahúsum ásamt því að starfa um tíma fyrir Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Helgi er með sveinspróf í framreiðslu ásamt því að hafa lokið háskólabrú Keilis.