Áform um að rekstur kísilvera hér á landi hefur gengið afar illa. Þau tvö kísilver sem byggð hafa verið á síðustu árum eru bæði lokuð. Kísilveri PCC  á Bakka við Húsavík var lokað í sumar og ekki hefur verið starfsemi í kísilveri United Silicon á þriðja ár. Arion banki tók kísilverið United Silicon yfir eftir gjaldþrot þess í ársbyrjun 2018 og hefur síðan þá unnið að því að fá starfsleyfi til að mega gangsetja verksmiðjuna á ný. Gert er ráð fyrir að fimm milljarða fjárfestingu þurfi til að koma henni á fullt skrið á ný.

Bakkastakkur, sem heldur utan um fjárfestingu lífeyrissjóða og Íslandsbanka í PCC, tapaði 7,3 milljörðum króna í fyrra. Félagið afskrifaði 2,4 milljarða eignarhlut sinn í PCC að fullu á síðasta ári og færði niður virði láns til PCC úr 9,7 milljörðum í 6,3 milljarða króna. Bakkastakkur á 13,5% í PCC á móti 86,5% eignarhlut þýska félagsins PCC SE. Þýska félagið lagði PCC á Bakka til fimm milljarða króna til síðasta vetur sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu kísilversins. Í ársreikningi PCC SE kemur fram að félagið lækkaði áætlað virði fjárfestingar félagsins á Bakka um 13% á síðasta ári og mat virði hennar á um 16 milljarða króna í lok árs 2019. Þá hafi tap PCC á Bakka numið ríflega 10 milljónum dollara, jafnvirði um 1,2 milljarða króna á síðasta ári, en eiginlegur rekstur hófst ekki formlega fyrr en afhending kísilversins fór fram í lok október 2019. Tíðar bilanir hafa einkennt reksturinn á Bakka og erfiðlega hefur gengið að halda fullum afköstum. Því til viðbótar er verð á kísil mjög lágt og markaðsaðstæður því erfiðar. Vegna þessa var ákveðið í sumar að loka kísilverinu og segja upp öllu starfsfólki. PCC fékk tafabætur frá verktakanum SMS Siemag á þessu ári sem námu á annan milljarð króna samkvæmt ársreikningi PCC SE. SMS Siemag greiddi einnig um 1,6 milljarða króna í tafabætur árið 2018 en áætlað var að kísilverið hefði kostað um 37 milljarða króna í byggingu. Gera á frekari endurbætur á kísilverinu meðan á lokuninni stendur.

vor samþykkti stjórn Reykjaneshafnar að segja upp samningi sínum vegna lóðar sem úthlutað var til Thorsil í Helguvík vegna vanefnda Thorsil. Félagið hefur frá árinu 2014 stefnt að því að reisa kísilver í Helguvík, skammt frá kísilveri United Silicon. Tap Thorsil Holding hf. nam tæplega hálfum milljarði króna í fyrra. Verðmæti eignfærðs kostnaðar í verkefninu var lækkað úr 831 milljónum króna í 415 milljónir króna á síðasta ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .