1xINTERNET hefur ráðið Hrannar Ásgrímsson í starf verkefnastjóra hjá 1xINTERNET á Íslandi. Hrannar sem er með víðtæka reynslu úr tækni og fjármálageiranum þegar kemur að  verkefnastýringu, kemur til 1xINTERNET frá Creditinfo þar sem hann starfaði sem verkefna- og vörustjóri. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Þar áður starfaði Hrannar m.a hjá CoreMotif, LS Retail og Símanum.

„1xINTERNET hefur verið umsvifamikið á Íslandi síðustu ár og unnið með fjölda íslenskra fyrirtækja og stofnana, má þar meðal annars nefna Reykjavíkurborg, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun, Mikluborg, Pennann/Eymundsson, Hugverkastofu og Eldum rétt. Helstu viðskiptavinir 1xINTERNET erlendis eru meðal annars Unity Technologies, Jägermeister, EFTA og Nestlé,“ segir í fréttatilkynningu.

Arnar Þór Sigurðarson, framkvæmdastjóri 1xINTERNET á Íslandi kveðst ánægður með að fá Hrannar í hópinn. „Það er alltaf gott að fá reynslumikið fólk eins og Hrannar í sitt lið, reynsla hans í að stýra flóknum hugbúnaðar verkefnum á eftir að reynast okkar viðskiptavinum á Íslandi mjög vel.“

1xINTERNET er með höfuðstöðvar í Frankfurt ásamt því að vera með skrifstofur Berlin og Conil á Spáni. Hjá fyrirtækinu starfa nú 46 starfsmenn.

Hrannar er giftur Bryndísi Rut Logadóttur og eiga þau þrjár dætur.