Brent hráolíuverð hefur hækkað um meira en 11% á fyrstu tveimur vikum ársins, en verð á tunnu af Brent hráolíu var um tíma komið upp í 88 dali á tunnu í morgun. Verð á tunnu af Brent hráolíu hefur ekki verið hærra síðan árið 2014 þegar olían var komin upp í 115 dali á tunnu, að því er kemur fram í frétt hjá Financial Times.

WTI hráolíuverð hefur einnig hækkað ört á árinu, um 12% á fyrstu tveimur vikum ársins. Verð á tunnu af WTI hráolíu er komið upp í rúmlega 85 dali. Verð á tunnu af WTI hráolíu hefur ekki verið hærra í sjö ár.

Sjá einnig: Hráolíuverð tekur við sér

Hráolíuverð hefur hækkað ört og mikið á árinu í takt við verðbólguna vestanhafs sem og í heiminum öllum. Greiningaraðilar spá því að hráolíuverð muni fara upp fyrir 100 dali á tunnu á þessu ári, nema mikil aukning verði á framboði af hráolíu.