Brent hráolían hefur hækkað um rúmlega 4% í dag og er verð á hráolíunni komið upp í tæpa 73 dali á tunnu. Hráolían hafði lækkað um 18% á undanförnum vikum vegna fregna af nýju Ómíkron afbrigði kórónuveirunnar. WTI hráolían hafði auk þess lækkað um 20% á undanförnum vikum en hefur hækkað um rúmlega 4% í dag og er verð á hráolíunni komið upp í rúmlega 69 dali á tunnu.

Samkvæmt Reuters má rekja hækkun hráolíuverðs til tveggja þátta. Í fyrsta lagi er mögulegt að nýja afbrigðið hafi ekki eins skaðleg efnahagsleg áhrif og var búist við í fyrstu, sérstaklega ef einkennin eru vægari en af fyrri afbrigðum. Í öðru lagi hafa horfur um aukinn útflutning Írans á olíu versnað.