Hreiðar Már Sigurðsson, sem var fyrrum bankastjóri Kaupþings þegar hrun bankanna bar að garði, hefur nú verið leystur úr haldi af fangelsinu við Kvíabryggju og er nú kominn til Reykjavíkur þar sem áfangaheimilið Vernd er til húsa. Hjá Vernd hefur Hreiðar fullt ferðafrelsi á daginn en þarf að gista í áfangaheimilinu á næturnar.

Hreiðar var dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi fyrir hlut sinn í Al-Thani málinu svokallaða. Auk hans voru þeir Sigurður Einarsson, Ólafur Ólafsson og Magnús Guðmundsson allir dæmdir í fangelsi, en þeir eru þegar komnir á Vernd.

Hreiðar var lengur að losna af Kvíabryggju vegna þess að hann hlaut þyngri dóm en hinir sakborningarnir í málinu - Sigurður, Magnús og Ólafur hlutu allir 4-4,5 ára dóma og voru því örlitlu fyrr komnir á áfangaheimilið í Reykjavík.