Hrein ný útlán bankanna og lífeyrissjóðanna til heimila fyrir fasteignakaupum námu 37 milljörðum króna í júlímánuði og hafa ekki verið meiri í allavega sjö ár.

Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, segir miklar vaxtalækkanir síðustu misseri vafalítið eiga hlut að máli, en hann tísti um málið fyrr í dag. „Það má ætla að þær spili þarna lykilhlutverk. Fólk er að nýta sér það og endurfjármagna, en skuldsetning er einnig að aukast almennt.“

Hann segir þó fleiri þætti einnig geta komið til. „Það er búið að vera rosalega mikið að gera á fasteignamarkaði, sem að einhverju leyti er afleiðing af ástandinu vegna heimsfaraldursins. Hluti þeirra fjármuna sem fólk ætlaði að nota í utanlandsferðir, innfluttar vörur og þessháttar virðist vera að leita inn á húsnæðismarkaðinn.“

Tekið skal fram að ekki eru til sambærilegar tölur um hrein ný útlán Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar – áður Íbúðalánasjóðs – og því er ekki hægt að fullyrða að talan endurspegli fjármálakerfið í heild. Viðmælendur Viðskiptablaðsins telja þó ólíklegt að þær tölur hefðu teljandi áhrif á heildarmyndina.

Hrein ný útlán banka og lífeyrissjóða hafa aldrei verið hærri samkvæmt tölunum, sem Seðlabankinn gefur út , en þær ná aðeins aftur til ársbyrjunar 2013. Næstmest voru hrein ný útlán í októbermánuði síðastliðnum, tæpir 28 milljarðar, en þar á eftir í júnímánuði nú í sumar, 27 milljarðar. Talan fyrir júlímánuð er því hátt í 10 milljörðum hærri en sú næsthæsta.

Hrein ný útlán síðastliðna þrjá mánuði nema 87 milljörðum, sem einnig er langtum hæst, og síðustu 12 mánuði nema þau 267 milljörðum, en þar er sömu sögu að segja.