Nú nýlega sendi fyrirtækið Býlið okkar frá sér nýjustu vöru sína, en hún ber heitið Heiða og er jurtamjólk. Guðni Þór Sigurjónsson, framkvæmdastjóri Býlisins okkar, telur að þessi nýjung muni hrista upp í markaðnum.

„Við leggjum okkar fram við að hafa alltaf gæðavöru á boðstólum og setjum neytendur í fyrsta sætið en ekki kerfið. Núna erum við að kynna nýjungar sem munu hrista upp í markaðnum. Þessi nýjung er jurtamjólkin Heiða og er íslensk framleiðsla. Það sem er ólíkt við Heiðu og öðrum sambærilegum vörum sem eru á markaðnum í dag, er það að hún er það fersk að það þarf að geyma hana í kæli. Til marks um þennan ferskleika þá er hún með tólf daga líftíma,“ segir Guðni.

„Munurinn á okkur og annarri jurtamjólk sem er í boði á markaði, er í raun eins og að bera saman g-vörur og þessar fersku vörur, eins og til dæmis g-mjólk á móti venjulegri mjólk. Heiða er einnig vegan, laus við alla búvörusamninga, er ekki niðurgreidd vara líkt og hefðbundin mjólk og er með minna kolefnisspor en aðrar sambærilegar vörur á markaðnum í dag. Við flytjum umbúðirnar inn tómar og samþjappaðar og notum íslenskt vatn, sem er mun umhverfisvænna en aðrir kostir sem eru í boði. Hún er því góð fyrir umhverfið og góður valkostur fyrir þá sem vilja neyta meira af afurðum úr jurtaríkinu og stuðla að heilbrigðri samkeppni á markaði,“ segir Guðni.

Varan væntanleg í verslanir í vikunni

„Við erum að setja tvær tegundir af jurtamjólk á markað, annars vegar möndlumjólk og hins vegar haframjólk. Það verða svo tvær útgáfur af hvorri tegund fyrir sig, ein sæt og önnur ósæt. Við bjóðum upp á þessa mismunandi valkosti meðan við erum að finna út hvernig markaðurinn bregst við vörunum. Við viljum því svolítið leyfa kúnnunum að velja. Alls eru þetta því fjórar mismunandi útgáfur af vörunni sem munu koma til með að fara í sölu hjá verslunum.

Varan er þegar byrjuð að skila sér í verslanir og kom í fjórar á höfuðborgarsvæðinu á föstudaginn í síðustu viku. Sú sending var fljót að seljast upp. Núna í þessari viku sendum við vöruna frá okkur í fleiri verslanir á höfuðborgarsvæðinu og einnig nokkrar verslanir úti á landi,“ segir Guðni.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð . Aðrir geta skráð sig í áskrift hér . Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Enn er stefnt að því að sólarkísilverksmiðja rísi hér á landi
  • Hugmynd Viðskiptaráðs um framtíð leigubílamarkaðarins
  • Úttekt á rekstrar- og fjárfestingakostnaði lífeyrissjóðanna
  • Sprotafjárfestir telur rafmyntir færa Íslandi stórt tækifæri
  • Ítarlegt viðtal við Sigurð R. Ragnarsson, forstjóra ÍAV.
  • Fjallað er um orkusýningar sem Landsvirkjun stendur fyrir
  • Viðtal við Símon Þór Jónsson, sem tók nýlega við sem sviðstjóri skatta- og lögfræðisviðs hjá Ernst & Young á Íslandi.
  • Framkvæmdastjóri FÍB kvartar yfir ógegnsæi Fjármálaeftirlitsins
  • Týr skrifar um pírata og ókyngreind salerni.