Þó álverð hafi hrunið í upphafi árs er bót í máli fyrir Norðurál á Grundartanga að raforkuverð sem félagið greiðir Landsvirkjun hefur lækkað enn meira. Landsvirkjun sér álverinu fyrir um þriðjungi af raforkunni sem álverið nýtir en Orkuveita Reykjavíkur og HS Orka sjá um afganginn.

Nýr raforkusamningur tók gildi milli Landsvirkjunar og Norðuráls á Grundartanga í byrjun nóvember, þar sem raforkuverðið var tengt Nord Pool raforkumarkaðnum í stað álverðs. Verðið sem félagið greiðir OR og HS Orku er tengt álverði.

Sjá einnig: Landsvirkjun gæti orðið af milljörðum

Í nóvember var meðalverð á Nord Pool raforkumarkaðnum 42 evrur á megavattstund en hefur síðan fallið um yfir 80%. Verðið var meðaltali 9 evrur á megavattstund í mars og var komið niður fyrir 5 evrur á megavattstund í miðvikudaginn. Óvenju mikilli vætutíð á Norðurlöndunum í vetur er kennt um verðhrunið.

Út frá þessu má áætla að Norðurál greiði sem stendur lægsta verð allra viðskiptavina Landsvirkjunar. Ríkisfyrirtækið selur Norðuráli um 10% af þeirri raforku sem það framleiðir. Landsvirkjun er þó bjartsýn á að verðið haldist ekki svo lágt til lengri tíma og taki að hækka á ný. Landsvirkjun hefur ekki varið sig fyrir sveiflum í verði á Nord Pool markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .