Hafnarfjarðarbær stefnir á að selja HSV eignarhaldsfélagi, sem er að mestu í eigu lífeyrissjóða, 15,42% hlut sinn í HS Veitum á um 3,5 milljarða króna samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Niðurstaða söluferlisins var kynnt á átakafundi bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar í gær.

Minnihlutinn ósáttur

Veruleg óánægja er meðal fulltrúa minnihlutans með hvernig málum hefur verið hagað í söluferlinu. Á fundinum kynntu fulltrúar Kviku banka, niðurstöðu ferlisins. Þar kom fram að til stæði að leggja málið fram formlega á bæjarráðsfundi á fimmtudaginn.

Fulltrúar minnihlutans eru óánægðir með skort á upplýsingagjöf í öllu ferlinu auk þess að hafa lagst gegn því að hluturinn verði seldur. Boðað hafi verið til fundarins, sem fór fram í gær, með skömmum fyrirvara og þeir hafi ekki verið upplýstir um að til stæði að kynna niðurstöðu söluferlisins. Varla sé stætt á því að þeir fái einungis tvo daga til að kynna sér gögn málsins áður en það verður rætt á ný í bæjarráði á fimmtudaginn.

Viðskiptablaðið greindi frá því í maí að Kvika hafi verið fenginn til að sjá um söluferlið í vor. Minnihluti bæjarstjórnar var einnig ósáttur að hafa ekki verið hafður með í ráðum þá.

Meirihluti í Hafnarfirði, sem skipaður er fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra, hefur hins vegar sagt að í ljósi efnahagsaðstæðna þurfi að leita leiða til að rétta af fjárhag sveitarfélagsins og sala eignarhlutarins sé ein leið til að ná því markmiði.

Virði HS Veitna meira en tvöfaldast

Ef kaupin ganga eftir mun Eignarhaldsfélagið HSV eignast tæplega helmingshlut í HS Veitum á móti 50,1% hlut Reykjanesbæjar og 0,1% hlut Suðurnesjabæjar. Upphaflega var óskað eftir tilboðum í júní. Eftir einkaviðræður við tvo kaupendahópa var tilboði HSV eignarhaldsfélags slhf. talið hagstæðast. Meðal stærstu hluthafa HSV eignarhaldsfélags eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Almenni lífeyrissjóðurinn, Gildi lífeyrissjóður og Ursus, fjárfestingafélag Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar.

HSV gekk inn í hluthafahópinn árið 2014 með kaupum á ríflega þriðjungshlut í HS Veitum af sveitarfélögum á Suðurnesjum og Orkuveitur Reykjavíkur á 3,14 milljarða króna. Þá voru HS Veitur metnar á ríflega 9,1 milljarð króna. Miðað við söluandvirðið nú er HS Veitnur metnar á tæplega 23 milljarða króna.

Greitt út 5,4 milljarða frá 2014

Í kynningu tengdu söluferlinu kom fram að félagið hafi greitt hluthöfum út um 5,4 milljarða króna frá árinu 2014 með greiðslu arðs og kaupa á eigin bréfum.

Um 5% tekjuvöxtur hafi verið á ári árin 2015 til 2019 og vöxtur rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) hafi numið um 9% á ári á sama tímabili. Þannig hafa tekjur félagsins aukist úr um 5,9 milljörðum í 7,2 milljarða króna á árunum 2015 til 2019.

HS Veitur högnuðust um 374 milljónir króna á fyrri hluta þessa árs miðað við 499 milljóna króna hagnað á sama tímabil árið 2019. Það ár var 1,6 milljarða króna hagnaður á rekstrinum 682 milljóna króna hagnað árið 2018. Um mitt þetta ár var bókfært eigið fé HS Veitna 14,3 milljarðar króna, eignir 30,7 milljarða króna og skuldir 16,4 milljarðar króna.

Kvika banki sá einnig um söluferli á hlut í Eignarhaldsfélaginu HSV á síðasta ári. Þá var kaupandinn framtakssjóðurinn Innviðir fjárfestingar, sem jafnframt er að mestu í eigu lífeyrissjóða.