Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálstofnunarinnar (WHO), var ómyrkur í máli á blaðamannafundi í gær. Hann sagði að stjórnvöld um heim allan yrði að hætta að draga lappirnar og sóa þeim tíma sem þau hafi. Rétti tíminn til að grípa til aðgerða gegn kórónuveirunni hafi verið fyrir mánuði. Yfirlýsingin þykir óvenjuleg þar sem talsmenn WHO reyni yfirleitt að forðast að gagnrýna einstaka ríki.

Heimsbyggðin fái nú annað tækifæri. Enn sem komið er séu 150 ríki þar sem færri en 100 kórónuveirusmit hafi greinst. Þau geti því enn undirbúið sig.

Þau ríki sem sett hafi á ströng samkomubönn hafi keypt sér meiri tíma til að grípa til harðari aðgerða. Hve lengi takmarkanir verði í gildi velti á því hve hratt ríki grípi til aðgerða til að takast á veið útbreiðslu veirunnar.

Tedros sagði aðgerðunum fylgdi óhjákvæmilega kostnaður fyrir ríki heimisins. Það síðasta sem lönd þyrftu hins vegar á að halda væri að opna skóla og fyrirtæki á ný til þess eins að loka þeim aftur þegar faraldurinn blossar upp á ný. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur síðustu daga ýjað að því að vinda eigi ofan af útgöngubönnum í landinu fyrir páska.

Mike Ryan, yfirmaður neyðaraðgerða hjá stofnuninni, segir heiminn ekki undirbúinn undir heimsfaraldur. Til að mynda hefði það gríðarlegar afleiðingar ef framleiðslukeðja gúmmíhanska rofnaði. Hætta sé á því þar sem megnið af öllu gúmmí heimsins komi frá örfáum löndum.

Tedros sagði ríki þurfi að grípa til sex aðgerða:

  • Þjálfa og fjölga heilbrigðisstarfsfólki
  • Koma upp kerfi til að hafa upp á smituðum
  • Ákveða hvernig einangra eigi smitaða
  • Auka framleiðslu og aðgengi að prófum við kórónuveirunni
  • Finna húsnæði sem nýta má sem sjúkrahús til að takast á við veiruna
  • Koma upp aðgerðaráætlunum til að hefta útbreiðslu veirunnar