Þórður Magnússon, einn aðaleigenda og stjórnarformaður Eyris Invest, segir aðganga að mörkuðum lykilatriði í að ná árangri. Þórður var viðmælandi Viðskiptablaðsins í vikunni og má lesa meira af viðtalinu við hann hér .

„Við höfum ekki haft skilning á því hvernig virðiskeðjan er samsett. Hugmyndin og varan eru kannski 20-30% af vegferðinni. Restin er að byggja upp dreifileiðirnar og aðgang að markaði. En hefðbundið hefur hugarfarið verið þannig að það væri nóg að búa til vöruna, markaðurinn sæi um restina. Hins vegar eru að verða miklar breytingar með samfélagsmiðlum og netverslun, sem skapar aðra möguleika til að byggja upp beint samband við viðskiptavinina án þess að fara í gegnum hefðbundnar dreifileiðir. Þetta á sums staðar við og fjárfesting okkar í Efni, sem er markaðs- og samfélagsmiðlafyrirtæki, er viðleitni í þá átt að leita nýrra leiða til að byggja upp sölu og dreifileiðir.“

Þórður segir lífeyrissjóðina íslensku vera í eigendahópi Eyris. Hann vill meiri virkni á hlutabréfamarkaði. „Stóra vandamálið í þessu er að markaðurinn sem slíkur getur ekki lengur stutt við frekari vöxt og viðgang félaga. Hlutabréfamarkaðurinn þarf að vaxa og styrkjast ef hann á að geta sinnt því hlutverki sínu að vera uppspretta fjármagns til vaxtar og verðmætasköpunar. Nú er Marel stærsta félagið á markaði og flestir lífeyrissjóðir með nánast hámarkseign sem þeir geta í því félagi. Það þurfa fleiri aðilar að koma inn í þá mynd til að skapa aukin viðskipti með bréfin þannig að það sé í reynd virkur markaður með bréfin. Það vantar fleiri fjárfesta inn á markaðinn og við höfum því miður heyrt af því að erlendir fjárfestar veigri sér við að fjárfesta á íslenska markaðnum, vegna íslensku krónunnar og pólitísks óstöðugleika.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .