Matvælastofnun hefur tekið ákvörðun um stöðvun starfsemi Hundaræktarinnar í Dalsmynni á grundvelli laga um velferð dýra.
Ástæða stöðvunar er að kröfur stofnunarinnar um varanlegar úrbætur hafa ekki verið virtar, einkum varðandi þjálfun, umönnun og umhirðu hundanna þ.m.t. hreinlæti og skráningar. Viðhaldi húsnæðis var sömuleiðis ábótavant segir í tilkynningu frá Matvælastofnun.

Aðgerðir og áætlanir vegna ormameðhöndlunar hunda ásamt sýnatökum voru sömuleiðis ekki fullnægjandi. Með ákvörðuninni er starfsemin í hundahúsum að Dalsmynni bönnuð, þ.m.t. innflutningur hunda, pörun, ræktun, got og annað hundahald sem ætlað er til ræktunarinnar eða tengist starfseminni, sem og pössun og geymsla á hundum.

Óheimilt verður að nýta húsin undir hundahald nema að undangenginni úttekt stofnunarinnar þar sem viðhald og ástand húsa sem notuð hafa verið undir starfsemina er ekki viðunandi m.t.t. þrifa og sótthreinsunar, sérstaklega út frá smiti með orminum Strongyloides stercoralis.

Hundaræktuninni hefur verið veittur frestur til eins mánaðar til að ráðstafa hundum að Dalsmynni og komast þannig hjá vörslusviptingu hunda af hálfu Matvælastofnunar.

Matvælastofnun hefur áður haft afskipti af starfseminni og um endurtekin brot er að ræða. Dreifingarbanni Matvælastofnunar árið 2014 var aflétt þegar kröfum stofnunarinnar um úrbætur hafði verið sinnt og gripið hafði verið til nauðsynlegra aðgerða til halda niðri smiti af völdum þráðorma og annarra iðrasýkinga sem greinst hafa þar.