Ríkisskattstjóri hefur farið fram á að húsnæði félagsins Hostel LV 105 ehf. sem rekur hostelið Hlemmur Square á Laugarvegi 105 verði boðið upp að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu. Þar er að finna auglýsingu um nauðungarsölu sem fara á fram 6. febrúar hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hafi kröfurnar ekki verið felldar niður fyrir þann tíma.

Farið er fram á að húsnæði á fjórum fasteignanúmerum við Laugaveg 105 verði boðin upp vegna skulda upp á 47 milljónir króna. Fasteignamat húsnæðisins er samtals 684 milljónir króna og telur ríflega 2.400 fermetra.

Hlemmur Square opnaði árið 2013. Þjóðverjinn Klaus Ortlieb hefur verið í forsvari fyrir hostelið sem eigandi félagsins. Hann á að baki áratugaferil í hótelrekstri, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.

Hostel LV 105 ehf tapaði 45 milljónum króna árið 2018 og 34 miljónum króna árið 2017. Árið 2018 var víkjandi láni upp á tæplega 400 milljónir króna breytt í hlutafé. Í árslok 2018 námu eignir félagsins 971 milljón. Þar af var virði fasteigna 904 milljónir króna en handbært fé 750 þúsund krónur. Eigið fé nam 428 milljónum og skuldir 543 milljónum króna í árslok 2018.

Hostel LV 105 er 90% í eigu félagsins 105 MANAGEMENT LIMITED og 10% í eigu fjárfestisins Auðuns Más Guðmundssonar.