Hlutdeildarlánalottó og reglugerð um eiginfjárkröfu lántaka er meðal þess sem meirihluti velferðarnefndar leggur til að verði gert til að hlutdeildarlán félags- og barnamálaráðherra komist í gegnum Alþingi. Þetta kemur fram í nefndaráliti og breytingatillögum nefndarinnar sem dreift var nýverið.

Hlutdeildarlánin eru hugsuð sem aðgerð til að auðvelda tekjulágum að eignast eigið húsnæði. Um er að ræða kúlulán frá ríkinu sem veitt er á móti láni frá lánastofnun. Úrræðið þýðir að kaupandi þarf aðeins að eiga 5% eigið fé til að geta eignast húsnæði. Lánið endurgreiðist við sölu fasteignar og fær þá ríkið til baka það hlutfall sem það lánaði fyrir. Áætlað er að árlegir fjórir milljarðar króna renni í úrræðið næstu tíu árin.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur fyrirliggjandi frumvarp verið gagnrýnt nokkuð og ekki verið samstaða um það innan stjórnarflokkanna. Meðal annars var sett út á það að ekki væri kveðið á um með skýrum hætti hvernig úthlutunarreglurnar verða. Alls er stefnt að því að veita um 400 slík lán á ári og sem stendur virðist fyrirkomulagið vera „fyrstur kemur fyrstur fær“, það er þeir sem sækja um í byrjun árs geta tæmt pottinn fyrir þá sem eru í fasteignahugleiðingum síðar á árinu.

„Meiri hlutinn leggur til breytingu þess efnis að það fyrirkomulag sem viðhaft verður við úthlutun lánanna verði frekar skýrt. Svo sem að framan greinir er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að fjárframlög dugi til útlána næstu tíu árin, en dugi fjárframlögin ekki sé Húsnæðis- og mannvirkjastofnun óheimilt að samþykkja fleiri umsóknir. Kæmi til þess að fjármagn til lánveitinganna dygði ekki til að anna eftirspurn væri þannig lögfest það fyrirkomulag að þeir sem sækja fyrstir um lánveitingu fá lán, en aðrir kunna að þurfa að bíða til lengri tíma eftir úthlutun,“ segir í nefndarálitinu. Dugi framboð lánsfjármagns ekki fyrir innsendum umsóknum er kveðið á um að haldið skuli lotterí til að ákveða hverjir fá lán og hverjir ekki.

Samkvæmt frumvarpinu ber lántaka að leggja fram eigið fé sem nemi að minnsta kosti 5% kaupverðs. Eigi umsækjandi umfram það skuli það sem umfram er koma til lækkunar á hlutdeildarláni, það er umsækjanda hefði verið skylt að verja öllu sínu fé til kaupa á húsnæðinu. Meirihlutinn leggur til að eðlilegum innflutningskostnaði og kostnaði uppsetning á innbúi megi halda eftir. Sá kostnaður verður að sjálfsögðu ákveðinn með reglugerð ráðherra.

Fjármálaráðuneytið telur mat á áhrifum ófullnægjandi

Upphaflegt frumvarp gerði enn fremur ráð fyrir því að lántaka yrði gert skylt með lögum að verja séreignarsparnaði sínum skattfrjálst til niðurgreiðslu á öðrum lánum sem hvíla á eigninni. Meirihlutinn leggur til að sú skylda falli brott og verði nýting séreignarsparnaðar því valkvæð. Enn er þó mælst til þess að fólk nýti sér það úrræði.

Eitt af því sem hefur verið sett út á í frumvarpinu er sú staðreynd að það gerir ráð fyrir því að lántakendum verði gert skylt að taka 25 ára lán hjá fjármálastofnun á móti hlutdeildarláni stjórnvalda. Bent hefur verið á að lántaki sem geti staðið undir greiðslubyrði 25 ára lán þurfi sennilega ekki aðstoð frá ríkinu.

„Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að það ynni gegn markmiðum frumvarpsins að takmarka lánstíma húsnæðislána hjá þeim sem taka hlutdeildarlán við 25 ár, enda úrræðið ætlað tekjulágum hópum, sem alla jafna legðu áherslu á að lækka greiðslubyrði sína. Oft væri eini kostur þessa hóps að taka 40 ára lán. Meiri hlutinn fellst á þetta sjónarmið en bendir á að ekki eru í frumvarpinu tilgreind önnur skilyrði fyrir undanþágu frá hámarkslánstíma en þau að umsækjandi taki óverðtryggt lán,“ segir í nefndarálitinu.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið er fjármála- og efnahagsráðuneytið. Í umsögn þess kemur fram að mat á fjárhagslegum áhrifum frumvarpsins, sem getið er í greinargerð þess, séu ófullnægjandi. Engin umfjöllun sé þar um stöðu ríkissjóðs með tilliti til áhættustýringar enda ljóst að það geti haft umtalsverð áhrif á ríkissjóð í niðursveiflu þar sem tekjur og eignaverð lækka.

„Engin umfjöllun er um áhrif frumvarpsins á skuldir ríkissjóðs. Auknar lántökur ríkissjóðs, sem verða óhjákvæmilegar verði frumvarpið að lögum, hafa bein áhrif á skuldahlutföll hins opinbera til hækkunar og draga því úr svigrúmi ríkissjóðs til annarra verkefna í framtíðinni,“ segir í umsögninni. Áhrif á efnahagslíf og fjármálastöðugleika gætu einnig orðið nokkur ef aðgerðin leiðir til þess að húsnæðisverð mun hækka.

Frumvarpið er á dagskrá þingfundar sem hefst klukkan 15 í dag og verður þá mælt fyrir meirihlutaálinu og breytingatillögunum.